Anna Birna Jensdóttir, forstjóri hjúkrunarheimilisins við Sóltún, segir umræðu um einkavæðingu ekki eiga við þegar rætt sé um að einkaaðilar hafi boðið hjúkrunarrými til afnota á Covid-tímum. Vissulega séu einkaaðilar að bjóða rými en ríkið hafi alla stjórn á daggjöldum, reglugerðum og hverjir komist að. Einkarekin hjúkrunarheimili eru rekin fyrir greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands og það muni ekki breytast þótt ríkið þiggi útrétta hjálparhönd á Covid-tímum.
„Þetta snýst bara um skort á úrræðum og það þarf að gera eitthvað,“ segir Anna Birna. Er hún ein þeirra sem haft hafa samband við heilbrigðisráðuneytið til þess að bjóða hjúkrunarrými.
Fram kemur í erindi hennar og Teits Guðmundssonar hjá Heilsuvernd í Læknablaðinu að boði um hjúkrunarrými til að koma til móts við skort á þeim hafi ekki verið sinnt af heilbrigðisráðuneytinu.
Ráðuneytinu hefur ítrekað verið sent erindi þar sem boðið er upp á hjúkrunarrými sem sár skortur er á, nú síðast 5. október. Þessum erindum hefur hins vegar aldrei verið svarað. Að sögn Önnu má færa rök fyrir því að mun minni líkur séu á því að sýkingin sem kom upp á Landakotsspítala hefði komið upp ef ríkið hefði þegið að nýta sér þau úrræði sem hjúkrunarheimili á borð við Sóltún hafi boðið. Hjúkrunarheimilið hefur boðist til þess að nýta hótelið Oddsson sem tímabundið hjúkrunarheimili. Fleiri hafa haft uppi svipaðar hugmyndir en engum hefur verið svarað úr heilbrigðisráðuneytinu.
Segir hún slíka valkosti betri en Landakotsspítala. Einfaldlega vegna þess að hægt er að huga betur að sótthólfum og t.a.m. hafi hver sjúklingur einkasalernisaðstöðu. Því var ekki að fagna á Landakotsspítala með tilheyrandi smithættu.
„Ef þú ert með húsnæði þar sem hver einstaklingur hefur einbýli og sér salerni, þá eru betri líkur á að komast í gegnum svona erfiðleika eins og Covid er. Það kemur vel fram í skýrslunni um Landakotsspítala,“ segir Anna.
„Öll sjúkrarými eru notuð upp í rjáfur og við hefðum getað hjálpað. Það er fjöldi milljarða kr. sem ríkið hefur notað í þessari baráttu og það skortir bara viljann til að framkvæma,“ segir Anna.
Anna segir að núverandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sé ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn sem ekki áhuga eða skilning á málaflokknum. Í áratugi hefur verið barist fyrir því í kerfinu að hægt sé að nýta einkarekin hjúkrunarheimili sem valkost. „Fyrir hverja einustu kosningar er fólk tilbúið að gera allt fyrir eldri borgara. En svo er ekkert gert,“ segir Anna.
Hún segir að ættingjar stjórnmálamanna fari á hjúkrunarheimili eins og aðrir. Í mörgum tilfellum verði þeir hissa á því hvernig málum er háttað og sjá að aðstandendur þeirra þurfa að fara á biðlista í kerfinu eins og aðrir. „Þetta er fjölveikt fólk sem þarf að standa í þeim sporum að það er ekki til úrræði fyrir það,“ segir Anna.