Aðalmeðferð í máli nuddara tók fjóra daga

Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness mbl.is/Ófeigur

Aðalmeðferð í dómsmáli gegn nuddara á fimmtugsaldri sem ákærður var fyrir að nauðga fjórum konum sem hann veitti líkamsmeðhöndlun vegna stoðkerfisvandamála á árunum 2011 til 2015 lauk í gær eftir fjóra daga í dómsal, en þinghaldið var lokað. Verður dómur í málinu kveðinn upp 5. janúar.

Í málinu er maðurinn ákærður fyrir fjórar nauðganir þegar hann var að nudda konurnar. Eru málin nokkuð sambærileg, en hann er sagður hafa meðhöndlað stoðkerfisvanda þeirra með háttsemi sem samræmdist ekki viðurkenndum aðferðum í nuddfræðum, meðal annars með meðhöndlun í gegnum leggöng þeirra.

Í ákæru málsins er hann sagður hafa káfað á kynfærum kvennanna án samþykkis þeirra þar sem þær voru léttklæddar á nuddbekk og svo stungið fingri inn í leggöng þeirra þeim að óvörum og í eitt skipti stungið fingri í endaþarm. Er hann með þessu sagður hafa beitt ólögmætri nauðung og misnotað sér traust kvennanna.

Hver kvennanna fer fram á 2,5 milljónir í miskabætur vegna málsins.

Eins og greint var frá í október fékk ein konan heimild til að gefa skýrslu í gegnum Teams frá Bandaríkjunum, en þar er hún búsett og vegna kórónuveirufaraldurs og umsóknar hennar um varanlegt landvistarleyfi þótti rétt að heimila skýrslutökuna erlendis frá.

Þó málin sem ákært er fyrir séu fjögur kærði á annan tug kvenna manninn til lögreglu vegna kynferðisbrota.

Aðalmeðferðin fór fram tvo daga í síðustu viku og á mánudaginn og miðvikudaginn í þessari viku í Héraðsdómi Reykjaness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert