„Auðvitað voru krakkarnir orðnir afskaplega þreyttir á þessu ástandi, hvort sem það snýr að æfingunum eða skólunum. Þjálfararnir hafa þó staðið sig frábærlega í því að koma út aukaæfingum og reynt að halda vel utan um hópana,“ segir Jóhann Þór Jónsson, formaður barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Breiðabliks.
Vísar hann þar til sóttvarnareglna sem verið hafa í gildi undanfarnar vikur og mánuði.
Krakkar fædd síðar en 2004 hafa ekki mátt stunda íþróttir undanfarnar vikur. Nú er þó breyting orðin þar á, en krakkar á umræddum aldri mega nú æfa úti í tíu manna hópum og með ströngum skilyrðum.
„Nú má æfa í tíu manna hólfum án snertingar og með aldursskiptingu,“ segir Jóhann en tekur fram að enn eigi eftir að koma í ljós hversu margir munu hafa ákveðið að hætta sökum tímabundinnar stöðvunar æfinga.
„Við óttumst þetta mjög mikið. Þessi aldur er hrikalega viðkvæmur og við vitum ekki hverjar heimturnar verða fyrr en þegar á líður. Þetta eru stórir árgangar og sannarlega sá hópur sem þú vilt að haldi áfram í íþróttum og stundi heilbrigt líferni,“ segir Jóhann Þór.
Bendir hann jafnframt á að ástandið hafi reynst mörgum íþróttafélögum afar erfitt þegar kemur að fjárhagslegu hliðinni. Greiða þurfi þjálfurum laun jafnvel þó engar æfingar hafi verið í gangi. „Það eru allir þjálfarar á launum. Útspil ríkisins hefur hingað til ekki tekið tillit til verktaka, en langstærstur hluti þjálfara á Íslandi er á verktakagreiðslum.“