Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa tekið vel í ábendingu frá íbúa í Garðabæ varðandi frágang á hringtorgi á móts við Bessastaði. Bæjarráð fól bæjarstjóra að taka upp viðræður við Vegagerðina vegna málsins.
Í ábendingunni kemur fram að hringtorgið fyrir framan forsetabústaðinn sé malarhringtorg og lágkúrulegt að mati bréfritara. „Er ekki mögulegt að veita því smá andlitslyftingu? Leyfa ungum hönnuðum eða listamönnum að spreyta sig í hönnunarkeppni um áhugaverða útkomu á þessu hringtorgi?
Margt spennandi kemur til greina, eitthvað tengt sjónum og sjómennsku en lengi vel var sjómennska ein aðalatvinnugrein Álftnesinga. Eða stytta af hesti eða hestum, en margir íbúar Álftaness eru miklir hestamenn. Eitthvað tengt Bessastöðum, t.d stytta af Sveinbirni Egilssyni, rektor Bessastaðaskóla,“ segir m.a. í bréfinu.
„En fyrst og fremst þarf að gera bragarbót á þessu malartorgi. Það er eiginlega bara sorglegt.“