Solaris hlutu mannréttindaverðlaun borgarinnar

Sema Erla Serdar, formaður og stofnandi hjálparsamtakanna Solaris tók við …
Sema Erla Serdar, formaður og stofnandi hjálparsamtakanna Solaris tók við verðalununum fyrir hönd samtakanna. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi hlutu í dag mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar sem voru afhent á opnum fjarfundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs á alþjóðlegum degi mannréttinda.

Hjálparsamtökin eru öflugur málsvari í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, bæði einstaklinga og barnafjölskyldna, að því er fram kemur í umfjöllun á vef Reykjavíkurborgar.

„Samtökin hafa reynst einstaklega öflugur málsvari í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, bæði einstaklinga og barnafjölskyldna. Samtökin hafa stuðlað að mikilvægri vitundarvakningu um stöðu þessa viðkvæma hóps með eftirtektarverðum árangri. Mikilvægur hornsteinn í mannréttindabaráttu er að veita raddlausum hópi rödd,“ segir í umsögn valnefndar og áfram er haldið:

„Samtökin hafa staðið öðrum framar í baráttunni fyrir réttlæti fyrir fólk á flótta, að grundvallarmannréttindi þeirra séu virt og að standa vörð um mannlega reisn þeirra. Samtökin hafa átt lykilþátt í því að koma í veg fyrir brottvísun fjölda barna á flótta og stuðlað að þörfum breytingum á löggjöf og stefnumótun til réttarbóta í málaflokknum.“

Sema Erla Serdar, formaður og stofnandi Solaris, tók til máls og þakkaði fyrir og sagði mannréttindaverðlaunin vera mikilvæga viðurkenningu á starfi samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert