Stefna að uppbyggingu í miðbæ Akureyrar

Horft yfir Akureyri á fallegum sumardegi.
Horft yfir Akureyri á fallegum sumardegi.

Akureyrarbær kynnir í dag tillögur að breytingum á miðbæjarskipulagi. Tillögurnar byggja á niðurstöðum þverpólitísks stýrihóps með fulltrúum allra flokka í bæjarstjórn. Stefnt er að því að hefja uppbyggingu sem allra fyrst.

Skipulagsráð samþykkti í fyrra að gera breytingar á deiliskipulaginu sem tók gildi 2014. Svæðið sem breytingarnar ná til afmarkast við Glerárgötu, Kaupvangsstræti, Skipagötu, Hofsbót og Strandgötu, að því er fram kemur á vef bæjarins.

Leiðarljós núverandi skipulags eru óbreytt. Markmiðið er sem fyrr að nýta betur opið landrými á milli Skipagötu og Glerárgötu með nýjum húsaröðum, stækka þannig miðbæinn og bæta tengingu við höfnina og Hof með rúmgóðum austur-vestur gönguásum.

Helstu breytingar, samkvæmt vef bæjarins:

  • Glerárgata verður áfram 2+2 vegur í núverandi legu, en gert er ráð fyrir þrengingu á einum stað með veglegri gönguþverun.
  • Þar sem ekki er gert ráð fyrir færslu Glerárgötu minnka lóðir og byggingarreitir við Skipagötu og Hofsbót.
  • Lagt er til að hluti Skipagötu verði einstefna til suðurs og að sama gildi um Hofsbót frá Skipagötu að Strandgötu.
  • Gert er ráð fyrir nýjum og afmörkuðum hjólastíg eftir Skipagötu sem og reiðhjólastæðum og -skýlum fyrir almenning í miðbænum, auk þess sem kvöð er sett um reiðhjólageymslur í öllum nýjum byggingum innan svæðisins.
  • Gerð er krafa um að á jarðhæð nýrra bygginga sem snúa að Skipagötu, Hofsbót og austur-vestur gönguásum verði lifandi starfsemi, svo sem verslanir, veitingastaðir, þjónusta og menningarstarfsemi sem stuðli að fjölbreyttu miðbæjarlífi.

Nánar má lesa um málið hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert