Dómari þáði greiðslur frá málsaðila

Kristinn Sigurjónsson sést hér til vinstri á myndinni.
Kristinn Sigurjónsson sést hér til vinstri á myndinni. mbl.is/Freyr

Búið er að fella úr gildi synjun Hæstaréttar er varðar áfrýjunarbeiðni Krist­ins Sig­ur­jóns­son­ar, fyrr­ver­andi lektors við Há­skól­ann í Reykja­vík. Lektorinn hafði fengið synjun um áfrýjunarbeiðni í dómstólnum, en hann tapaði máli gegn skólanum í Landsrétti. 

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Kristins, segir að óskað verði eftir því að Hæstiréttur taki málið fyrir. „Það er búið að fella þessa synjun úr gildi. Það er enn þá einhver von fyrir skjólstæðing minn að ná vopnum sínum. Hann hefur verið grátt leikinn í þessu máli.“

Dómari var kennari við HR

Að sögn Jóns Steinars var synjunin felld úr gildi sökum þess að einn dómara, sem stóð að afgreiðslu synjunarinnar, var jafnframt kennari við Háskólann í Reykjavík. Skólinn er málsaðili, en Krist­inn hafði stefnt skól­an­um vegna upp­sagn­ar hans í októ­ber í fyrra. Ástæða uppsagnarinnar voru um­mæli sem hann hafði uppi á net­inu. 

Dómarinn sem um ræðir er Sigurður Tómas Magnússon. Segir Jón Steinar að málið sé með miklum ólíkindum. „Þegar ég fékk tilkynningu um að málið hefði verið tekið fyrir af þremur dómurum og synjað þá hugkvæmdist mér að skoða það betur. Í ljós kom að einn dómaranna, sem tók þessa ákvörðun, er maður sem hafði verið að kenna við HR,“ segir Jón Steinar og bætir við að hann hafi verið við störf á haustönninni sem er að líða. 

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfaði á nýafstaðinni haustönn

„Það kemur í ljós að hann hefur verið að vinna í kennslu og prófdómarastörfum á haustmisserinu sem er að líða. Hann hefur þegið laun fyrir það. Þetta þýðir að dómari er að þiggja greiðslur fyrir störf hjá öðrum málsaðila,“ segir Jón Steinar. 

Eftir því sem mbl.is kemst næst kenndi Sigurður Tómas hæstaréttardómari fyrst við Háskólann í Reykjavík árið 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert