Hætta á hópsmiti meðal hælisleitenda

Hætta er á smiti í stórum úrræðum Útlendingastofnunar.
Hætta er á smiti í stórum úrræðum Útlendingastofnunar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

„Auðvitað höfum við áhyggjur af þessu og höfum gert frá því að faraldurinn byrjaði. Blessunarlega hefur ekki komið upp smit í stóru úrræðunum,“ segir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar. Vísar hún þar til smits sem upp kom meðal hóps hælisleitenda hér á landi. 

Umræddir einstaklingar voru allir í sóttkví við greiningu, en enn er óljóst hversu útbreitt smitið er. Aðspurð segist hún ekki vita hversu margir kunna að vera smitaðir sökum þessa. „Þetta er eitthvað sem er alfarið í höndum smitrakningarteymis.“

Yfir 50 manns í sama rými

Framangreint smit kom upp í úrræði á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Húsnæðið hýsir fjölskyldur, en því er skipt upp í nokkrar íbúðir. Hvers fjölskylda er þannig með eldunar- og salernisaðstöðu út af fyrir sig. Það er því ekki víst að smitið sé mjög útbreitt. 

Að sögn Þórhildar er meiri hætta á mörgum smitum  fari svo að smit greinist í stærri úrræðum Útlendingastofnunar. Í sumum úrræðum deila yfir 50 manns salernisaðstöðu og sameiginlegu rými. „Að sjálfsögðu er hætta á að svona sýking dreifist hraðar í rýmum þar sem margir einstaklingar eru saman. Sumir umsækjendur um alþjóðlega vernd búa mjög þröngt. Við reynum þó að gera fólk kleift að sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum,“ segir Þórhildur. 

„Við gerum þess vegna allt sem við getum til að gera fólki kleift að sinna ein­stak­lings­bundn­um sótt­vörn­um, meðal annars með því að tryggja aðgang að sápu, spritti og grímum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert