Sóttvarnastofnun Evrópu hefur gefið út ráðleggingar um notkun klórs til sótthreinsunar, til að verjast veirunni SARS-CoV-2. Þær ráðleggingar byggja meðal annars á niðurstöðum rannsókna á áhrifum klórs á kórónuveiruna.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Ágústs Kvaran, prófessors í eðlisefnafræði við HÍ, á Vísindavef Háskóla Íslands við spurningunni: Getur klór í sundlaugum drepið Covid-veiruna og þá hvernig?
„Klór-sótthreinsivökvi sem notaður er í sundlaugum og víðar inniheldur veika sýru sem nefnist hypýklórsýra. Hún getur smogið inn fyrir frumuhimnur örvera og fituhimnur hjúpaðra veira og valdið þar skaða á viðkomandi örverum og veirum með ýmsum efnabreytingum. Í því felst eyðingarmáttur klór-sótthreinsunar gagnvart örverum og veirum,“ segir Ágúst en líkt og fram hefur komið er hægt að rekja mun fleiri smit til líkamsræktarstöðva en sundlauga.
„Smit tengd líkamsrækt og líkamsræktarstöðvum og afleidd smit vegna þeirra eru margalt fleiri en smit sem rekja má til sundlauga. Þetta sýna niðurstöður úr rakningargrunni sóttvarnalæknis.
Um 35 ríki Evrópusambandsins flokka líkamsrækt sem hááhættustaði og gripu til lokana líkamsræktarstöðva snemma í faraldrinum. Samtök bandarískra smitsjúkdómalækna telja smithættu vegna sunds í almenningslaug í meðallagi en að líkamsræktarstöðvar feli í sér hááhættu.
Engar vísbendingar eru um að Covid-19 veiran geti smitast með vatni og klórblandað sundlaugarvatn drepur veiruna. Þetta eru meðal þeirra forsendna sem liggja að baki mati sóttvarnalæknis og ákvörðunum heilbrigðisráðherra um að hafa líkamsræktarstöðvar lokaðar en heimila opnun sundlauga með miklum fjöldatakmörkunum svo hægt sé að virða nálægðarmörk,“ segir á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Í greinargerð sóttvarnalæknis um þetta efni kemur fram að bein smit sem tengjast líkamsrækt eru 36 og fjöldi afleiddra smita vegna þeirra eru 74. Bein smit frá sundlaugum eru fimm og heildarfjöldi afleiddra smita vegna þeirra eru 20. Tölurnar eru birtar með þeim fyrirvara að sjaldnast er hægt að segja með algjörri vissu hvar einstaklingar smitast og eins má hafa í huga að ekki tekst að rekja öll smit að því er segir í greinargerð Þórólfs Guðnasonar.
Sérstaklega er fjallað um bein smit og afleidd smit í greinargerðinni. Þar kemur meðal annars fram að
„Þessar tölur er birtar með þeim fyrirvara að sjaldnast er hægt að segja með algjörri vissu hvar einstaklingar smitast. Einnig má hafa í huga að ekki tekst að rekja öll smit. Þessar upplýsingar byggja eingöngu á upplýsingum úr rakningargrunninum. Það er þau smit sem starfsfólk smitrakningarteymis hefur tengt saman, niðurstöður úr raðgreiningum eru ekki með í þessum tölum.“
Hér er hægt að lesa lengri útgáfuna af svari Ágústs Kvaran á Vísindavefnum