Ríkið sýknað af kröfum fyrrum skólameistara

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi.
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að sýkna íslenska ríkið af kröfu fyrrum skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi um að skipunartími hennar hafi framlengst til fimm ára fram til loka ársins 2025. 

Ágústa Elín Ingþórsdóttir var árið 2014 skipuð til að gegna starfi skólameistara á Akranesi til fimm ára. Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er mælt fyrir um að embættismenn skuli skipaðir tímabundið til fimm ára í senn nema annað sé tekið fram í lögum og skuli honum tilkynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar. Sé það ekki gert framlengist skipunartími hans í embætti sjálfkrafa um fimm ár.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tilkynnti Ágústu símleiðis 30. júní 2019 að hún hefði ákveðið að auglýsa stöðuna lausa til umsóknar.  Ágústa bar hins vegar  fyrir dómi, að  henni hafi ekki verið tilkynnt um að auglýsa ætti embætti skólameistara fyrr en að kvöldi 1. júlí 2019 þegar henni barst tölvupóstur frá staðgengli ráðuneytisstjóra þar sem það kom fram. Í símtalinu daginn áður hafi ráðherra eingöngu talað um að hún hefði hug á að auglýsa embættið en ákvörðun um það hefði ekki verið tekin. Því hafi lögbundinn frestur verið liðinn.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í desember í fyrra, að ákvörðun ráðherra um að auglýsa stöðu skólameistara Fjölbrautaskólans á Vesturlandi hafi verið tekin á grundvelli skýrrar lagaheimildar, birt innan lögmæltra tímamarka og byggð á málefnalegum sjónarmiðum að undangenginni fullnægjandi rannsókn.

Landsréttur féllst á það með héraðsdómi, að um fullnægjandi tilkynningu hafi verið að ræða um að ráðherra hafi ákveðið að auglýsa stöðuna og Ágústa hafi þannig fengið vitneskju um þá ákvörðun áður en frestur samkvæmt lagaákvæðinu var liðinn. Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti hafi Ágústu jafnframt verið send skrifleg tilkynning um þetta.

Segir Landsréttur, að í ljósi  meginreglu laga um tímabundinn skipunartíma embættismanna geti embættismaður ekki haft réttmætar væntingar til þess að skipun hans vari lengur en mælt sé fyrir um í skipunarbréfi. Megi þá einu gilda hversu oft heimild laganna til að auglýsa embætti laust til umsóknar hafi verið nýtt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka