Nú eru sjálfsagt flest börn búin að setja skóinn út í glugga enda von á fyrsta jólasveininum í nótt og undirbúningur fyrir mikla vertíð hjá jólasveinum langt kominn.
Stekkjarstaur kemur fyrstur jólasveinanna. Hann var sagður sjúga mjólk úr kindum en hafði staurfætur á báðum svo heldur gekk það brösuglega. Stekkur er gamalt heiti á sérstakri fjárrétt og þaðan dregur sveinninn nafn sitt.
Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.
Hann vildi sjúga ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.
Þannig hljómar jólasveinavísan um hann Stekkjastaur eftir Jóhannes úr Kötlum.