Landsréttur ómerkti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í fyrra þar sem Þórður Már Jóhannesson og Sólveig Pétursdóttir voru sýknuð af kröfu Lyfjablóms ehf. sem krafðist samtals 2,3 milljarða króna í skaðabætur vegna háttsemi stjórnenda fjárfestingafélagsins Gnúps árið 2006.
Lyfjablóm áfrýjaði dómnum og krafðist þess að dómur héraðsdóms yrði ómerktur þar sem brostið hefði skilyrði til að skipta sakarefni málsins en þau voru sýknuð á grundvelli fyrningalaga og tómlætis stefnanda.
Við aðalmeðferð málsins í héraði kom fram að Þórður Már og Helgi Arnarson, endurskoðandi Gnúps, könnuðust ekki við millifærslur upp á 1,6 milljarða króna sem áttu sér stað degi eftir að Þórður greiddi inn tveggja milljarða hlutafé sitt í félagið.
Gnúpur var fjárfestingarfélag sem var stofnað árið 2006. Eignarhaldið var á höndum þriggja hópa. Fyrst var það Magnús Kristinsson sem átti ásamt fjölskyldu sinni 46,5% í félaginu. Þá áttu félög í eigu Kristins Björnssonar og þriggja systra hans 46,4% og Þórður Már Jóhannesson átti 7,1%. Stofnun félagsins var þó öllu flóknari en að þessir aðilar hafi lagt til fjármagn í hlutfalli við eignarhlutinn og um það snýst m.a. dómsmálið.
Stefnandi í málinu er félagið Lyfjablóm, en það var móðurfélag utan um eignir Kristins Björnssonar og fjölskyldu og hét áður Björn Hallgrímsson ehf., í höfuðið á föður systkinanna. Var félagið í jafnri eign Kristins og systranna þriggja og öll sátu þau í stjórn félagsins. Síðar urðu breytingar á eignarhaldi félagsins.
Fram kemur í niðurstöðu Landsréttar að stefndu, Þórður og Sólveig, hafi í héraði byggt á reglum um fyrningu og tómlæti og óskuðu eftir því að sakarefni málsins yrði skipt. Snýr það að því að dæmt er sérstaklega um tiltekin atriði máls á meðan önnur bíða. Málið var flutt þannig og Þórður og Sólveig sýknuð, eins og fram hefur komið.
Landsréttur kemst að þeirri niðurstöðu að málatilbúnaður um grundvöll skaðabótaábyrgðar annars vegar og fyrningu hins vegar falli verulega saman og því ekki fært að slíta þá þætti málsins í sundur þannig að leyst verði úr öðrum þeirra á meðan hinn bíði.
Af þeim sökum er áfrýjaður dómur ómerktur og málinu vísað aftur í hérað.