„Ef við náum þessu aldrei alveg niður þá er hætta á að þetta blási upp. Þetta er á viðkvæmum stað, en ég myndi ekki hafa áhyggjur af þessu alveg strax. Við vissum að þetta væri alveg möguleiki,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. Vísar hann þar til smitfjölda dagsins.
Alls greindust 22 kórónuveirusmit í gær. Þar af voru tíu á landamærum og tólf innanlands. Fimm greindust hjá hælisleitendum sem búa mjög þröngt. Hugsanlegt er að fleiri smit greinist í tengslum við það.
Að sögn Thors er ekki ástæða til að hafa áhyggjur. Reynslan sýni okkur að vel hafi tekist til með að halda utan um klasasmit. „Við vitum að þetta er alltaf möguleiki og ég er ekki svartsýnn á að þetta setji okkur út af laginu. Okkur hefur fram til þessa gengið vel að ná utan um klasasmit,“ segir Thor og bætir við að lokaspretturinn sé fram undan.
„Við höfum verið að ná smitstuðlinum niður, en nú snýst þetta um að klára lokasprettinn. Ég held að við getum alveg gert það. Við þurfum að setja smá leikgleði í þetta, það er stutt til jóla. Ég er bjartsýnn á að við komumst nokkuð góð inn í jólin.“