Sr. Kristjáni Björnssyni, vígslubiskupi í Skálholti, er skylt að mæta til skýrslugjafar fyrir dómi vegna aðkomu hans sem biskup Íslands að ágreiningi sr. Kristins Jens Sigurþórssonar gagnvart íslensku Þjóðkirkjunni. Úrskurðað var um þetta í Héraðsdómi Suðurlands í dag.
Taldi sóknaraðili, sr. Kristinn Jens, að vitnisburður sr. Kristjáns gæti ráðið úrslitum um mögulega málshöfðun á hendur Þjóðkirkju Íslands.
Sr. Kristinn Jens hefur frá því að Saurbæjarprestakall, hvar hann var sóknarprestur frá árinu 1996, var lagt niður árið 2019 átt í deilum við Þjóðkirkjuna vegna starfsloka sinna.
Sr. Kristinn Jens telur sér hafa verið boðið embætti sóknarprests í Garða- og Hvalfjarðastrandarprestkalli á fundi með sr. Kristjáni, sem þá hafi komið fram sem biskup fyrir hönd Þjóðkirkjunnar.
Sóknaraðili segist hafa þegið boðið en Þjóðkirkjan síðan hafnaði því og honum tjáð að boðið stæði ekki lengur. Segir sóknaraðili deilum sínum við Þjóðkirkjuna ekki lokið og líklegt að þær endi í dómsmáli. Því sé nauðsynlegt að fá fram vitnisburð sr. Kristjáns Björnssonar.
Baðst sr. Kristján Björnsson undan vitnaleiðslu enda taldi sig aðila dómsmáls sem sóknaraðili hefur í hyggju að sækja, þar sem hann kom fram sem biskup Íslands.
Ekki var fallist á málflutning vígslubiskups heldur úrskurðað með rétti sóknaraðila til að afla sannanagagna vegna mögulegrar málshöfðunar.
Sóknaraðila, sr. Kristni Jens Sigurþórssyni er því heimilt að leiða fyrir dóm til skýrslugjafar sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup.