Nú heiti ég Ljóni

„Ég á heima hér. Ég er skrítinn heima í Quebec; …
„Ég á heima hér. Ég er skrítinn heima í Quebec; þar er ekki lengur mitt fólk,“ segir Ljóni sem ákvað átta ára að gerast Íslendingur. mbl.is/Ásdís

Ljóni býður blaðamanni inn í nota­lega íbúð sína í Skerjaf­irðinum þar sem hann býr ásamt sam­býl­is­konu sinni. Fal­lega skreytt fura stend­ur þar í horn­inu og skap­ar hlý­lega jóla­stemn­ingu. Í bóka­hillu í stof­unni má sjá fjöl­marg­ar tungu­mála­bæk­ur; orðabæk­ur og mál­fræðibæk­ur og fáni Sama hang­ir þar úr einni hill­unni.

Við ræðum brenn­andi áhuga Ljóna á vís­ind­um og minni­hluta­tungu­mál­um en hann tal­ar þau nokk­ur; tungu­mál sem hann kenndi sér að mestu sjálf­ur.

Íslensk­an stend­ur þó hjarta hans næst.

Þið munuð aldrei skilja þetta

Ljóni fædd­ist í út­hverfi Montreal í Qu­e­bec í Kan­ada árið 1988 og var gefið nafnið Étienne Léon Pois­son. Fjöl­skyld­an var ósköp venju­leg Qu­e­bec-fjöl­skylda og á heim­il­inu var töluð franska. Eng­in tengsl voru við Ísland né Íslend­inga. En hinn ungi Étienne Léon hafði snemma mikið dá­læti á hinni ís­lensku Björk.

Ljóni talar mörg minnihlutatungumál og segist ekkert þurfa að kunna …
Ljóni tal­ar mörg minni­hluta­tungu­mál og seg­ist ekk­ert þurfa að kunna mál sem millj­ón­ir manns tala. mbl.is/Á​sdís

„Þegar ég var átta, níu ára hlustaði ég mikið á Björk. Á þeim tíma þurfti ég að gera rann­sókn­ar­verk­efni í skól­an­um um eitt­hvert land, og af því ég elskaði Björk valdi ég Ísland, sem ég vissi þá ekk­ert um. Ég fékk þá mik­inn áhuga á land­inu, en þó aðallega á tungu­mál­inu,“ seg­ir Ljóni sem tal­ar óaðfinn­an­lega ís­lensku. Svo góða að ekki er nokk­ur leið að heyra minnsta vott af hreimi og all­ar beyg­ing­ar og setn­ing­ar­gerðir eru rétt­ar.

Ljóni seg­ist hafa ákveðið þá og þegar að læra ís­lensku, korn­ung­ur dreng­ur­inn.
„Það var gerð heim­ild­ar­mynd um Björk ein­hvern tím­ann fyr­ir löngu og í henni sýn­ir hún dag­bók­ina sína, sem er skrifuð á ís­lensku. Hún seg­ir í mynda­vél­ina: „Þið munuð aldrei skilja þetta.“ Ég tók því sem áskor­un,“ seg­ir Ljóni sem seg­ist ung­ur hafa haft mik­inn áhuga á skrítn­um staf­róf­um, eins og því rúss­neska og gríska.

Þarf ekki að tala við millj­ón­ir

Um fjór­tán ára ald­ur hafði Ljóni kennt sjálf­um sér heil­mikið í ís­lensku en fékk þá senda kennslu­bók í ís­lensku og ís­lenskri mál­fræði sem hann lagðist í.
„Þá fékk ég loks­ins efni sem ég gat notað, því áður hafði ég bara verið á net­inu og það voru mjög fáar vefsíður þar sem maður gat lesið texta og fengið að hlusta á hljóðsýni. Svo keypti ég mér fleiri bæk­ur til að lesa og orðabók í gegn­um Bók­sölu stúd­enta og ég þurfti að borga svo mikið til að fá hana senda heim!“ seg­ir hann og dæs­ir.

Hvað fannst for­eldr­um þínum um þenn­an áhuga þinn á ís­lensku?

„Mömmu fannst það mjög skrítið. Hún hefði viljað að ég hefði lært eitt­hvert stærra tungu­mál sem væri meira gagn að. En mér finnst það skrít­in hugs­un, að vilja til dæm­is læra þýsku af því að marg­ar millj­ón­ir tala þýsku. Ekki ætla ég að tala við svona marga millj­ón­ir; ég vil aðallega bara tala við tvær þrjár mann­eskj­ur,“ seg­ir hann og hlær. 

Var alltaf nörd

Ljóni var eng­inn venju­leg­ur ung­ling­ur. Hann eyddi öll­um sín­um frí­tíma í þetta sér­kenni­lega áhuga­mál, að læra ís­lensku.

„Ég var nörd áður en ég byrjaði að læra ís­lensku. Ég var alltaf frek­ar mikið í mín­um eig­in heimi og hef aldrei haft mikla þörf til að vera inn­an um marga eða að sanna mig. Ég var aðallega að læra ís­lensku, hlusta á Björk og ímynda mér hvernig líf mitt yrði á Íslandi. Því ég var löngu bú­inn að ákveða að ég myndi flytja hingað; það gerðist al­veg strax í byrj­un. Ég man mjög vel eft­ir að hafa legið í rúmi mínu sem ung­ling­ur og talið hvað ég þyrfti að vinna marga daga í hvað mörg sum­ur til að eiga pen­ing til að fljúga hingað sem fyrst,“ seg­ir hann.
„Það er svo langt síðan ég byrjaði að læra ís­lensku að ég man varla eft­ir því. Ég man ég var að reyna að ná err­um og að æfa mig að fall­beygja og ég man að ég grét yfir tölv­unni þegar ég skildi ekki neitt.“

Breytti nafni sínu í Ljóni

Ljóni heim­sótti Ísland í fyrsta sinn þegar hann var um sautján ára. Hann hafði þá kynnst ís­lensk­um skipt­inema úti og urðu þau perlu­vin­ir.

Ljóni á fullar hillur af tungumálabókum og elskar málfræði.
Ljóni á full­ar hill­ur af tungu­mála­bók­um og elsk­ar mál­fræði. mbl.is/Á​sdís

„Hún heit­ir Birna og við kynnt­umst af því að all­ir vissu að ég væri „ís­lenski gaur­inn“. Hún var í öðrum skóla en við átt­um sam­eig­in­lega vini og urðum svo mjög nán­ir vin­ir. Við töluðum oft­ast ís­lensku sam­an og hún kenndi mér mikið. Svo leið ár og þá fór ég til henn­ar í fimm vik­ur og svo leið aft­ur ár og þá flutti ég hingað,“ seg­ir Ljóni og hef­ur hann búið hér síðan, fyr­ir utan tvö ár þegar hann var í meist­ara­námi í Svíþjóð.

Spurður um nafnið Ljóni seg­ist hann hafa lengi verið kallaður því nafni.

„Það var hún Birna sem byrjaði að kalla mig Ljóna. Nú heiti ég Ljóni. Ég sótti um að fá nafnið samþykkt í fyrra, en ég hét áður Étienne Léon Pois­son en milli­nafnið breytt­ist í Ljóna. Ég vildi ólm­ur fá nafn sem beyg­ist rétt. Ég vildi geta fall­beygt mitt eigið nafn. Svo finnst mér nafnið flott og ég er alltaf kallaður Ljóni.“

Aldrei aft­ur heim

Þegar Ljóni flutti hingað al­kom­inn nítj­án ára gam­all lá leiðin beint í há­skól­ann en Ljóni kom hingað á styrk frá Þjóðrækn­is­fé­lagi Íslend­inga í Kan­ada og hóf nám í ís­lensku í Há­skóla Íslands. Ekki ís­lensku fyr­ir út­lend­inga, því það var allt of létt fyr­ir unga mann­inn sem hafði þá kennt sjálf­um sér ís­lensku í tíu ár.

„Ég kom hingað og vissi að ég myndi aldrei flytja heim aft­ur, en ég þurfti að fara heim á sumr­in. Ég sótti um und­anþágu fyr­ir að þurfa ekki að fara í ís­lensku fyr­ir út­lend­inga, því styrk­ur­inn var ætlaður þeim sem myndu fara í það nám. En ég kom hingað 24. ág­úst 2008 og tók öll próf­in fjór­um dög­um seinna og náði öllu og fékk leyfi til að fara beint í ís­lensku. Sem ég sá svo eft­ir, því þar voru aðallega kennd­ar bók­mennt­ir. Ég hef eng­an áhuga á bók­mennt­um. Ég hef áhuga á hljóðfræði, hljóðkerf­is­fræði og mál­gerðarfræði. En við þurft­um að lesa fimm bindi af sögu ís­lenskra bók­mennta og mér fannst all­ir heita sömu nöfn­un­um. Ég var al­veg týnd­ur en ég náði þessu. Þetta var mjög erfitt, að læra um drótt­kvæði og brag­ar­hætti en ég fékk aðeins að hátta nám­inu eins og ég vildi. Ég fékk að taka finnsku­nám­skeið. Ég var reynd­ar orðinn reiprenn­andi í finnsku áður.“ 
Blaðamaður hvá­ir.

Ef finnska og ís­lenska ættu barn

Hvenær lærðir þú finnsku?

„Ég byrjaði að læra finnsku kannski tveim­ur, þrem­ur árum eft­ir að ég byrjaði að læra ís­lensku. Ég fór í gegn­um öll Norður­landa­mál­in. Íslensk­an var fyrst, svo sænska, norska og svo finnsk­an og þaðan fór ég yfir í sa­mísku. Ég bjó í Svíþjóð þannig að ég tala sænsk­una og ég tala sa­mísk­una og finnsku kann ég mjög vel. En ég fæ aldrei að tala hana. Það eru fáir Finn­ar á Íslandi og þeir eru ekki mjög skraf­hreifn­ir,“ seg­ir hann og bros­ir.

 „Íslenska er hjarta­málið mitt. Það er ekki móður­málið mitt en það er tungu­mál lífs míns. Ég fór í gegn­um tán­ings­ár­in að hluta til á ís­lensku og öll full­orðins­ár­in eru á ís­lensku. Finnsk­an er „frú­st­reraða“ málið mitt því ég hef enga teng­ingu við Finna og ég myndi segja að ég væri með blæti fyr­ir sa­mísku. Það er fal­leg­asta og áhuga­verðasta tungu­málið! Það er akkúrat eins og ef finnska og ís­lenska hefðu átt barn sam­an,“ seg­ir hann og blaðamaður get­ur varla ímyndað sér hvers kon­ar bast­arður það væri.

En Ljóni sann­fær­ir hann um að varla sé til feg­urri tunga en sa­míska og seg­ir einnig finnsku vera afar fal­legt tungu­mál.

„Hún er svo hrein. Eins og vel smurð vél. Þar er allt reglu­legt og allt skýrt. Þar er allt svart-hvítt. Stund­um þegar maður hlust­ar á finnsku hljóm­ar það næst­um eins og vél­menni sé að tala. Ég fíla það og finnst það sjarmer­andi. Það er gam­an að tala þannig,“ seg­ir hann og gef­ur blaðamanni dæmi af setn­ingu og hvernig hún hljóm­ar. 
Aðeins einu sinni hef­ur Ljóni komið til Finn­lands.
„Ég var í Finn­landi í viku árið 2011 en talaði ekki mikið. Það vildi eng­inn tala við mig,“ seg­ir hann og skellilhlær.

Vildi verða vís­indamaður

Ljóni kláraði BA-gráðu í ís­lensku og kenndi með námi út­lend­ing­um ís­lensku hjá Mími.
„Það var ótrú­lega gef­andi og ég sakna þess. Það var svo gam­an að taka kannski eitt­hvað eitt fyr­ir, eins og viðteng­ing­ar­hátt þátíðar og reyna að út­skýra það þannig að þau skildu. Og ég tel mig hafa mjög góðan skiln­ing á öllu svona og ég elska mál­fræði. Ég elskaði að kenna, en ákvað svo að fara aft­ur í nám og valdi líf­efna­fræði. Ég hafði alltaf áhuga á vís­ind­um og vildi leggja mig fram við að skilja þau í al­vör­unni. Og verða vís­indamaður,“ seg­ir hann en Ljóni kláraði BS-próf árið 2016. Á náms­ár­un­um öðlaðist hann svo ís­lensk­an rík­is­borg­ara­rétt og gat því farið frítt í fram­halds­nám til Svíþjóðar. 

Í dag vinn­ur Ljóni hjá Al­votech og nýt­ur sín vel þar. Þar vinn­ur hann í rann­sókn­ar­stofu við lyfja­próf­an­ir.

Vildi aðlag­ast hundrað pró­sent

Ljóni seg­ir Íslend­inga hafa lang­flesta tekið sér strax vel, enda talaði hann málið það vel að sum­ir sem hann hitti trúðu ekki að hann væri út­lend­ing­ur og báðu hann jafn­vel um að sýna sér vega­bréfið sitt.

„Ég kunni mál­fræðina og beygði rétt en auðvitað var margt í byrj­un sem ég vissi ekki. En ef maður tal­ar góða ís­lensku er maður Íslend­ing­ur. Ég segi stund­um „þið“. Ég er Íslend­ing­ur en kannski ekki al­veg ís­lensk­ur. Mig vant­ar hér fyrstu fimmtán, tutt­ugu árin. Ég á enga ís­lenska barnæsku.“

Þú tal­ar al­veg eins og Íslend­ing­ur!

 „Á góðum degi. Það var alltaf planið. Ég vildi alltaf verða Íslend­ing­ur og geta aðlag­ast hundrað pró­sent. Ég vildi ekki vera öðru­vísi en aðrir hér. Það ger­ist al­veg að ég segi eitt­hvað vit­laust eða nota vit­laust fall. Það ger­ist helst ef ég er þreytt­ur eða tala við yf­ir­menn. Það er alltaf mar­tröð. Ég er viss um að yf­ir­maður minn held­ur að það sé eitt­hvað að mér, því ég er alltaf svo stressaður að tala við hana,“ seg­ir hann og hlær. 

Draum­ur­inn að búa í Samalandi

Ertu al­veg sest­ur að hérna?

„Sko, draum­ur minn er að flytja til Sama­lands. Lands­lagið þar er eig­in­lega al­veg eins og á há­lendi Íslands. Ég nær­ist á þessu tungu­máli og menn­ing­unni, en þetta eru frum­byggj­ar þannig að það er allt gjör­ólíkt okk­ar menn­ing­ar­heimi. Það er verið að brjóta mann­rétt­indi þar á hverj­um degi og ég finn mikið til með Söm­um. Ég væri til í að kenna þar eða taka þátt í end­ur­lífg­un máls­ins. Það þarf fólk með mál­vís­indak­unn­áttu og sem kann að út­skýra mál­fræðina og sem get­ur búið til kennslu­efni. Þetta er mjög lítið tungu­mál, en það eru 85.000 Sam­ar í fjór­um lönd­um og minna en helm­ing­ur þeirra tal­ar sa­mísku, en það eru níu sa­mísk tungu­mál. Ég tala bara norður-sa­mísku, sem er það tungu­mál sem flest­ir Sam­ar tala,“ seg­ir Ljóni og seg­ir um 30.000 manns tala það tungu­mál.

„Planið er að flytja þangað áður en ég verð fer­tug­ur en við ætl­um fyrst að reyna að eign­ast barn,“ seg­ir hann og seg­ist vera bú­inn að sann­færa Júlíu um að það sé góð hug­mynd að flytja þangað um hríð.

Ljóna dreym­ir um að aðlag­ast sa­mísku sam­fé­lagi jafn vel og hann hef­ur aðlag­ast ís­lensku sam­fé­lagi. Hann hef­ur þó aldrei komið þangað þótt hann tali málið reiprenn­andi.

Mér líður best hér

Við för­um að slá botn­inn í sam­talið enda komið að kvöld­mat­ar­tíma. Óhætt er að segja að spjallið við þenn­an ein­staka mann hafi verið bæði skemmti­legt og fræðandi. Og þó Ljóni hafi fæðst í Qu­e­bec er hann sann­ar­lega Íslend­ing­ur.

„Ég á heima hér. Ég er skrít­inn heima í Qu­e­bec; þar er ekki leng­ur mitt fólk. Ég fann eitt sinn mjög gamla ís­lenska orðabók þar sem Qu­e­bec var þýtt sem Hvíbekk­ur og ég bjó þá til nýtt orð og lít á mig sem Hvíbekkverja fram til árs­ins 2005 en þá byrjuðu tengsl­in mín við Qu­e­bec að rofna. Ég rækta ekki mik­il tengsl við mína gömlu vini þar. Líf mitt er tví­skipt,“ seg­ir Ljóni. 

„Ég sem full­orðin mann­eskja er Íslend­ing­ur og mér líður best hér.“

Ítar­legt viðtal við Ljóna er í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina. 



Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert