Bjargar ferðaþjónusta torfbæjunum?

Gamlir torfbæir eru margir hluti af minjasöfnum og opnir gestum. …
Gamlir torfbæir eru margir hluti af minjasöfnum og opnir gestum. Þeir sýna gamla byggingarhefð og líf fólks á öldum áður.

Torfhúsin eru einstakar minjar en á hröðu undanhaldi fyrir tímans tönn,“ segir Sigríður Sigurðardóttir, aðjunkt við ferðamáladeild Háskólans á Hólum. „Lykillinn að varðveislu þeirra, eins og annarra húsa, er viðhald. Það þarf þó að vera tíðara en annarra húsa.“

Sigríður hefur nýlokið ritun þriggja skýrslna um rannsókn sem hún gerði á torfhúsum og ferðaþjónustu. Tilgangurinn var að kanna hvort hægt sé að nota torfhús markvisst í ferðaþjónustu og kanna áhuga Íslendinga á að varðveita þessi hús.

„Íslendingar vilja að við höldum við öllum þessum húsum, ekki bara stóru bæjunum. Það þýðir að við verðum að viðhalda handverkinu og þekkingunni ef við ætlum að halda torfhúsunum. Ef ferðaþjónustan sér möguleika í að nota torfhús í auknum mæli þá mun það koma handverkinu til góða og fjölga verkefnunum,“ segir Sigríður. Hún telur að torfhús sem standa uppi að öllu leyti eða hluta séu talin í tugum ef ekki hundruðum.

„Íslensku torfhúsin eru einstök og hafa þróast öðruvísi en maður sér víða í „torfhúsabeltinu“. Það nær hringinn í kringum jörðina nyrst í tempraða beltinu,“ segir Sigríður.

Almennt eru torfhús horfin eða að hverfa á þessu svæði. Hús lík íslensku gangabæjunum, þar sem er innangengt í öll hús, voru t.d. til í Finnlandi. Veðráttan og skortur á byggingarefni urðu til þess að torfhúsin voru notuð lengur hér en annars staðar. Góð einangrun olli því að þau reyndust mjög vel, ekki síst fyrir búpening. Sigríður segir að t.d. Skotar vilji endurreisa torfhús og komi hingað til að læra hvernig á að hlaða úr torfi og grjóti. Jarðvegshús voru líka notuð fyrir fólk og búpening t.d. í Kanada og Alaska.

Torfhús og ferðaþjónusta

Viðhorf til nytja- og minjagildis torfbygginga er heiti fyrstu skýrslunnar. Þar segir að vaxandi fjöldi ferðamanna sæki í menningartengda afþreyingu, þar á meðal að skoða gömul hús. Nokkrir stórir torfbæir í húsasafni Þjóðminjasafnsins eru m.a. opnir gestum. „Gamlar torfbyggingar eru „sögulegar menningarminjar“, sem vitna um verk- og siðmenningu kynslóðanna sem á undan okkur gengu og þróun bygginga. Því fleiri sem hverfa því dýrmætari verða þær sem eftir standa,“ segir í formála.

Rannsóknin sýndi að íslenskir og erlendir ferðamenn mátu það mikils að geta skoðað torfhús og fengið þannig innsýn í byggingararf og hversdagslíf þjóðarinnar fyrr á öldum. Landsmenn virtust almennt vera hlynntir því að torfhúsaarfinum yrði viðhaldið og hann nýttur í ferðaþjónustu.

Önnur skýrslan heitir Torfbyggingar í ferðaþjónustu, viðhorf og hugmyndir. Þar kemur fram að fólk er hlynnt viðhaldi þjóðlegra bygginga, eins og torfhúsa, og að nýta þær eins og kostur er í ferðaþjónustu. M.a. var bent á að bæta mætti aðgengi fyrir alla að torfhúsunum.

Heiti þriðju skýrslunnar er Gestir meta torfbæi. Hún byggist á svörum gesta sem heimsóttu torfbæi í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Þeir mátu torfbæina mikils og gáfu þeim mjög háar einkunnir. Sögðu þá gefa einstaka innsýn í byggingararf og hversdagslíf þjóðarinnar fyrr á öldum. „Ánægja og áhugi bæjargesta í Nýjabæ, Glaumbæ, Laufási, Grenjaðarstað og á Keldum eru glögg merki um mikilvægi torfbæjanna og annarra torfhúsa sem tengjast menningartengri ferðaþjónustu,“ segir í ágripi skýrslunnar.

Viðhorf til torfhúsa

Byggðarannsóknasjóður veitti árið 2019 styrk til rannsóknar á torfbyggingum og viðhorfum til þeirra. Markmiðið var að sýna hvaða sess torfhúsin hafa í fræðslu, ferðaþjónustu og í minjavernd. Einnig hver vilji Íslendinga er til að vernda þau og hvaða tilgangi þau ættu að þjóna. Sigríður Sigurðardóttir, aðjunkt við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, stýrði rannsókninni og hefur skrifað þrjár skýrslur um hana.

Rannsóknin var gerð í samvinnu ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, Minjastofnunar Íslands, Þjóðminjasafns Íslands, Byggðasafns Skagfirðinga, Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert