Samkomubann stöðvar ekki rappið

Jónas Víkingur Árnason úr félagsmiðstöðinni 100og1 í Reykjavík bar sigur …
Jónas Víkingur Árnason úr félagsmiðstöðinni 100og1 í Reykjavík bar sigur úr bítum í aðalkeppni Rímnaflæðis. Ljósmynd/Aðsend

Samkomutakmarkanir komu ekki í veg fyrir Rímnaflæði 2020, rappkeppni unga fólksins á vegum Samfés. Tveir ungir og efnilegir rapparar stóðu uppi sem sigurvegarar. 

Annars vegar vann Jónas Víkingur Árnason úr félagsmiðstöðinni 100og1 í Reykjavík keppnina sjálfa eftir að dómnefnd hafði valið lag hans „Svæðið mitt“.

Hins vegar sigraði Heiða Björk Halldórsdóttir úr félagsmiðstöðinni Buskanum í netkosningu með laginu „Rækja rækja“ og hlaut þar með titilinn Rappari unga fólksins 2020.

Heiða Björk Halldórsdóttir úr félagsmiðstöðinni Buskinn sigraði æsispennandi netkosningu.
Heiða Björk Halldórsdóttir úr félagsmiðstöðinni Buskinn sigraði æsispennandi netkosningu. Ljósmynd/Aðsend

Kom ekki til greina að aflýsa

„Rímnaflæði, rappkeppni unga fólksins sem fyrst var haldin í Miðbergi árið 1999, er stökkpallur fyrir unga og efnilega rappara úr félagsmiðstöðvum víðsvegar að af landinu. Dómnefnd valdi sigurvegara Rímnaflæðis 2020 og var Rappari unga fólksins valinn í netkosningu.

Það kom ekki til greina hjá Samfés, sem eru landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, að aflýsa viðburðinum vegna samkomubanns, og var því ákveðið að halda Rímnaflæði með stafrænum hætti í samstarfi við UngRúv og Dominos,“ segir í tilkynningu frá Samfés.

Dómnefndina skipuðu þau Ragna Kjartansdóttir, Cell7, og Viktor Örn Hjálmarsson, fulltrúi ungmennaráðs Samfés.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert