Samkomutakmarkanir komu ekki í veg fyrir Rímnaflæði 2020, rappkeppni unga fólksins á vegum Samfés. Tveir ungir og efnilegir rapparar stóðu uppi sem sigurvegarar.
Annars vegar vann Jónas Víkingur Árnason úr félagsmiðstöðinni 100og1 í Reykjavík keppnina sjálfa eftir að dómnefnd hafði valið lag hans „Svæðið mitt“.
Hins vegar sigraði Heiða Björk Halldórsdóttir úr félagsmiðstöðinni Buskanum í netkosningu með laginu „Rækja rækja“ og hlaut þar með titilinn Rappari unga fólksins 2020.
„Rímnaflæði, rappkeppni unga fólksins sem fyrst var haldin í Miðbergi árið 1999, er stökkpallur fyrir unga og efnilega rappara úr félagsmiðstöðvum víðsvegar að af landinu. Dómnefnd valdi sigurvegara Rímnaflæðis 2020 og var Rappari unga fólksins valinn í netkosningu.
Það kom ekki til greina hjá Samfés, sem eru landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, að aflýsa viðburðinum vegna samkomubanns, og var því ákveðið að halda Rímnaflæði með stafrænum hætti í samstarfi við UngRúv og Dominos,“ segir í tilkynningu frá Samfés.
Dómnefndina skipuðu þau Ragna Kjartansdóttir, Cell7, og Viktor Örn Hjálmarsson, fulltrúi ungmennaráðs Samfés.