Mikið annríki var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt en rúmlega hundrað mál voru skráð frá klukkan 17 í gær til fimm í nótt. Mikið var um samkvæmi í heimahúsum og fram kemur í dagbók lögreglu að fólk virðist farið að slaka á varðandi Covid-19.
Hávaðakvartanir vegna samkvæma voru á þriðja tug og allur gangur var á hvort fólk virti 10 manna regluna.
Fangageymsla er nánast full eftir nóttina en þar var fólk vistað vegna líkamsárása, þjófnaðar og húsbrota.
Karlmaður var handtekinn í Breiðholti á öðrum tímanum í nótt eftir að hafa gengið berserksgang í húsi þar sem hann var gestkomandi. Hann var vistaður í fangaklefa.
Rétt fyrir klukkan þrjú í nótt var maður handtekinn vegna líkamsárásar í Hafnarfirði. Hann var vistaður í fangaklefa en ekki liggja fyrir upplýsingar um líðan þess sem varð fyrir árásinni.