Skógarmítill í sókn

Skógarmítill. Þeir fá far með far-fuglum og geta mögulega sest …
Skógarmítill. Þeir fá far með far-fuglum og geta mögulega sest að. Ljósmynd/Erling Ólafsson

Skógarmítlum hefur fjölgað í Evrópu á síðustu árum og útbreiðslusvæði þeirra stækkað til norðurs.

„Líklega er það ástæðan fyrir því að við erum að sjá fleiri skógarmítlatilfelli hér á landi á síðustu árum. Þ.e. að hingað séu að berast fleiri mítlar með farfuglunum okkar en áður,“ sagði Matthías Svavar Alfreðsson, skordýrarfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ), í skriflegu svari við spurningum Morgunblaðsins.

Hann sagði að vissulega ætti hlýrra loftslag að auðvelda mítlunum lífið hér. Um er að ræða norðlæga tegund sem getur lagst í dvala yfir vetrartímann. Skógarmítlar geta alveg lifað af við núverandi aðstæður á Íslandi. En þeir eru háðir blóðmáltíðum og þurfa þrjár slíkar á lífsferlinum. Þeir þurfa því aðgang að hýslum. „Það má segja að hér á landi sé skortur á hýslum eða þéttleiki þeirra takmarkandi og það gerir skógarmítlum erfitt fyrir,“ sagði Matthías.

Hlýnunin leiðir líklega til þess að hýslar, eins og hagamús, muni búa við betri fæðuskilyrði, minni vetrarafföll og þéttleiki þeirra því aukast. Kanínum fjölgar og þær breiðast út í náttúrunni. Matthías telur að þetta geti auðveldað skógarmítlum að nema hér land.

Hann kveðst ekki geta sagt að skógarmítill sé orðinn landlægur hér. Fá þarf staðfestingu á því að honum takist að ljúka lífsferli sínum hér á landi. Til þess þarf að finna lirfur dýrsins sem ekki hefur tekist þrátt fyrir mikla leit.

Mítlum sem sendir eru til greiningar og varðveislu hjá NÍ og á Keldum hefur fjölgað undanfarin ár. Þar getur aukin umræða og hvatning til dýralækna og almennings um að senda skógarmítla hafa haft áhrif. Skógarmítlar hafa fundist um allt land. Undanfarin ár hefur Matthías leitað reglulega að skógarmítlum sem eru að bíða eftir hýsli. Þeir skríða upp í gróður og bíða þar með framlappirnar úti í von um að grípa hýsil. Hann hefur fundið 43 slíka skógarmítla undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og á Höfn í Hornafirði. Matthías fer reglulega um Suðvestur- og Suðurland og fer svo hringinn í kringum landið á fimm ára fresti. Næsta hringferð verður 2021.

Skógarmítlar bera Borrelia burgdorferi-bakteríu sem getur borist í menn við bit mítilsins. Hún veldur Lyme-sjúkdómi í mönnum. Bakterían hefur fundist í mítlum hér á landi. Nú stendur yfir sýklarannsókn á mítlum sem safnað var af farfuglum þegar þeir komu til landsins. Niðurstöður verða líklega birtar á næsta ári.

Í Læknablaðinu (2. tbl. 2019) var greint frá faraldsfræðilegri rannsókn á Lyme-sjúkdómi á árunum 2011-2015. Að meðaltali greindust 6,6 tilfelli hér á ári og voru þau öll af erlendum uppruna. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert