Reglugerð sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur undirritað kveður á um hækkun atvinnuleysisbóta um 3,6% og tekur hún gildi um áramót. Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið að greiða tímabundið álag á grunnbætur frá 1. janúar 2021 og út allt það ár sem nemur 2,5% og mun því hækkun óskertra bóta næsta ár vera alls 6,1%. Óskertar atvinnuleysisbætur verða því 307.403kr. á mánuði á næsta ári.
„Frá því að Covid-19 faraldurinn hófst höfum við gripið til fjölbreyttra og markvissra aðgerða og nú erum við að hækka bæði tekjutengdar atvinnuleysisbætur og grunnbæturnar. Við vitum að næstu misseri verða krefjandi á ýmsum vígstöðvum en við erum farin að sjá ljósið við enda ganganna og ég er sannfærður um að viðspyrnan verður skörp þegar á næsta ári,“ er haft eftir Ásmundi Einari á vef Stjórnarráðsins.