Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson, sem ákærðir hafa verið fyrir fjársvik og peningaþvætti í tengslum við starfsemi félagsins Zuism trúfélag, neituðu báðir sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag.
Enn fremur sögðu lögmenn bræðranna ákæru í málinu svo óskýra að ekki sé hægt að taka hana til efnislegrar meðferðar og því ekki hægt að halda uppi eðlilegum vörnum. Þar væri meðal annars ekkert fjallað um í hverju meint blekking bræðrana felist.
Lögmenn bræðranna munu gera kröfu um frávísun og verður tekist á um hana í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. febrúar.
Í ákæru málsins kemur fram að auk þeirra bræðra höfði embættið málið gegn Zuism trúfélagi og einkahlutafélaginu EAF, sem Einar er skráður fyrir og bandaríska félaginu Threescore LLC, sem er skráð í Delaware, en Einar er skráður fyrirsvarsmaður félagsins.
Eru bræðurnir sagðir hafa „styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna íslenskra stjórnvalda að trúfélagið Zuism uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags samkvæmt lögum nr. 108/1999, um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög“.
Með þessu hafi þeir fengið greiddar 84,7 milljónir úr ríkissjóði í formi sóknargjalda, en fjármunirnir voru meðal annars notaðir í eigin þágu þeirra, til vöru- og þjónustukaupa, svo sem hjá veitingahúsum, áfengisverslunum, eldsneytisstöðvum, matvöruverslunum og fjarskiptafyrirtækjum svo og vegna ferðakostnaðar.