Eldsvoði í Hafnarfirði

Eldur kom upp í húsnæði verslunar við Miðvang í Hafnarfirði um kvöldmatarleytið í gærkvöldi og var talsverður viðbúnaður hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Að sögn varðstjóra í slökkviliðinu kom eldurinn upp í rými með sérinngangi og náði ekki að breiðast út í fleiri rými. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en nokkurt tjón varð af völdum elds og reyks.

Síðasta sólarhringinn fór slökkviliðið í 92 sjúkraflutninga, þar af 23 forgangsflutninga og 10 vegna Covid-19. Að sögn varðstjóra eru Covid-flutningarnir oft fleiri en venjulega daginn eftir að farþegavélar koma hingað til lands þar sem yfirleitt þurfa einhverjir að fara í mótefnamælingu. Þar sem fólk getur ekki nýtt sér þjónustu leigubifreiða er það sjúkraflutningafólk sem annast flutninginn ef viðkomandi hefur ekki yfir eigin bifreið að ráða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert