Öll skipulagning í kringum bólusetningu við kórónuveirunni á höfuðborgarsvæðinu mun klárast í þessari viku og þá getur heilsugæslan stokkið til og bólusett landann með „mjög stuttum fyrirvara,“ að sögn forstjóra heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann vonast til þess að „ekki dropi“ af bóluefninu muni fara til spillis.
„Við erum í samstarfi við öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og borgina ef við þurfum að taka marga í einu, en það fer eftir magni bóluefnis. Svo erum við með aðra sviðsmynd ef við tökum færri sem það lítur svolítið út fyrir núna. Þetta er allt komið vel áleiðis og við munum klára alla skipulagningu í þessari viku. Við getum stokkið til með mjög stuttum fyrirvara,“ segir Óskar Reykdalsson forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Viðbúið er að Lyfjastofnun Evrópu taki ákvörðun um það hvort hún veiti bóluefni Pfizer/BioNTech bráðaleyfi fyrir 29. desember næstkomandi. Ísland bíður niðurstöðu Lyfjastofnunar Evrópu en heilbrigðisráðuneytið hefur gert samning við fyrirtækið um skammta sem duga 85.000 manns. Óskar segir afar mikilvægt að heilsugæslan geti verið snögg að stökkva til í bólusetningu ef og þegar leyfið berst.
Eins og áður hefur komið fram þá fá ákveðnir hópar, t.a.m. eldri borgarar og heilbrigðisstarfsfólk, forgang í bólusetningu. Þá mun fólk fá boð í bólusetningu þegar tíminn kemur.
Ef fólk mætir ekki er þá útlit fyrir að bóluefni fari til spillis?
„Það mun ekkert fara til spillis. Það er einn af mikilvægustu þáttum verkefnisins. Þetta eru þannig einingar að endingin er skilgreind mjög nákvæmlega. Við munum passa það að það fari ekkert til spillis, ekki dropi,“ segir Óskar sem ætlar sjálfur í bólusetningu.
„Ég fer í bólusetningu um leið og ég má,“ segir Óskar. Hann hvetur fólk til að mæta í bólusetningu þegar röðin kemur að því.
„Ég held að það sé mjög mikilvægt. Því fleiri sem koma inn í þetta og fara í bólusetningu þeim mun öruggara er að við getum fengið að lifa eðlilegu lífi.“
En hvar verður fólk bólusett?
„Þetta er svolítið eftir því um hverja er að ræða. Ég geri til dæmis ráð fyrir því að starfsfólk spítalans verði bara bólusett á spítalanum. Ákveðnir hópar verði síðan kallaðir til í stórar einingar,“ segir Óskar.
Ef lítið af bóluefni berst til að byrja með er útlit fyrir að fólk verði bólusett í húsnæði á Suðurlandsbraut, þar sem sýnataka fer fram sem stendur.
„Ef við fáum lítið af bóluefni og þurfum bara að bólusetja nokkur þúsund þá getum við gert það þar.“
Þá eru sjö til átta staðir á höfuðborgarsvæðinu einnig mögulegir kostir fyrir bólusetningu.
„Það er ekki alveg búið að ákveða hvar við verðum. Við erum í samstarfi við lögreglu og almannavarnir vegna þess vegna þess að það þarf að tryggja öryggi, það eru bílastæðin, flæðið í gegnum húsið og svona þannig að það eru svoleiðis mál sem eru í gangi núna. Við erum til dæmis að funda um það á morgun og það fara allir dagar í svona undirbúning svo allir séu tilbúnir.“
Pfizer bóluefnið þarf að geyma við 80 gráðu frost en mögulegt er að geyma það við minni kulda í skamman tíma.
Eruð þið að gera ráð fyrir að á einhverjum af þessum stöðum séu kælar þar sem þið getið geymt bóluefnið við verulega mikinn kulda?
„Það fer alveg eftir því um hvaða bóluefni ræðir. Pfizer bóluefnið þarf að vanda sig við að flytja á milli og það er ákveðinn tímaþáttur í því öllu. Það mun allt vera alveg 100% öruggt og það getur vel verið að við dreifum þessu bara hægar frá framleiðanda en það kemur bara í ljós. Það verður ekkert vandamál innan höfuðborgarsvæðisins enda stuttar vegalengdir.“