Andstaða er innan Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð.
Frumvarpið var lagt fram á Alþingi fyrir nokkrum dögum og framundan er þá umfjöllun úti í samfélaginu og í þingnefndum, áður en til afgreiðslu kemur.
„Ég samþykki ekki frumvarpið eins og það liggur fyrir núna,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann telur að ekki sé horft heildstætt til þeirra víðtæku hagsmuna, t.d. í orkumálum, sem hálendisþjóðgarður snertir. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir samtal við fólk sem kunnugt sé staðháttum á hálendinu og sinni vörslu þess vel hafa mistekist. Í sveitunum, til dæmis á Suðurlandi, sé mikil andstaða við málið, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Í Hrunamannahreppi gerðist það fyrir helgina að blokkir í sveitarstjórn riðluðust í bókunum um þjóðgarðsmál. Einn úr þriggja manna meirihluta H-lista skrifaði upp á bókun sjálfstæðismanna, sem eru andvígir. Jón Bjarnason, oddviti þeirra, segir mörgum spurningum um þjóðgarð ósvarað, svo sem um forræði yfir þjóðlendum. Halldóra Hjörleifsdóttir frá H-lista og oddviti sveitarfélagsins segir þjóðgarð hins vegar til þess fallinn að efla byggðina, enda sé fundin viðunandi lausn fyrir sveitarfélögin á fyrirkomulagi skipulagsmála.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður spyr í aðsendri grein í blaðinu hverju þjóðgarðurinn muni raunverulega skila fyrir þjóðarbúið.