Nútími og klassík eru, að mati dómnefndar, einkennandi í nýju byggðarmerki Múlaþings sem sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum í sl. viku. Alls 70 tillögur bárust um merkið í samkeppni sem auglýst var í lok október. Vinningstillagan er eftir Grétu V. Guðmundsdóttur hönnuð.
Byggðarmerkið nýja er í fjórskiptum skildi með sterkum, einföldum, táknrænum línum. Einn fjórðungur merkisins er útlínur Múlakolls, sem er fremsti hluti Þingmúla sem var einn helsti samkomustaður Austfirðinga til forna og eru Múlasýslurnar nefndar eftir honum. Annar fjórðungur er framtíðartákn hringrásar. Horft er til dagsbrúnar frá Héraðsflóa og Borgarfirði eystri, þar sem sólin rís. Þriðji fjórðungurinn er horn hreindýrsins og á þeim fjórða eru tindar og útverðir fjalla.
„Þrátt fyrir skiptar skoðanir sem vörðuðu meira tilfinningar og smekk var nefndin ásátt um að hið útvalda merki gætum við öll staðið á bak við, og að það þjónaði tilgangi sínum á sterkan hátt,“ segir á vef Múlaþings.
Sveitarfélagið, sem er afar víðfeðmt, varð til í haust með sameiningu Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Djúpavogshrepps. Íbúar eru liðlega 5.000. sbs@mbl.is