Mega skila þrotabúi 149 stólum

Hér má sjá umrædda stóla á Skelfiskmarkaðinum.
Hér má sjá umrædda stóla á Skelfiskmarkaðinum. mbl.is/Valgarður Gíslason

Landsréttur hefur fallist á að rekstraraðili verslunarinnar Parka, Bitter ehf., megi skila þrotabúi Skelfiskmarkaðarins 149 stólum. 

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að rift er greiðslu Skelfiskmarkaðarins ehf. á skuld við áfrýjanda, Bitter ehf., sem fór fram með afhendingu 149 stóla í mars á síðasta ári. Bitter skal skila stefnda, þrotabúi Skelfiskmarkaðarins ehf., þeim 149 stólum sem hann fékk afhenta frá Skelfiskmarkaðinum. Bitter skal greiða þrotabúinu 1,6 milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.  

Stólarnir metnir á 6,7 milljónir

Forsaga málsins er sú að Parki fékk 149 stóla afhenta til baka eftir að Skelfiskmarkaðinum var lokað, en áður en úrskurður um gjaldþrot hafði verði kveðinn upp. Fram kom í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að Skelfiskmarkaðurinn hafi keypt 151 stól fyrir veitingastaðinn af Parka fyrir samtals 13,6 milljónir króna. Alls keypti veitingastaðurinn vörur af Parka fyrir 55 milljónir.

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hanna

Gefinn var út kreditreikningur þar sem miðað var við 50% afföll og voru stólarnir því metnir á 6,7 milljónir. Parki gerði í kjölfarið kröfu í búið upp á 18,8 milljónir vegna eftirstandandi krafna í búið.

Í skýrslutöku hjá skiptastjóra sagði stjórnarformaður Skelfiskmarkaðarins að Parki hefði verið með veð í stólunum og til að lækka skuld félagsins hafi stólarnir verið teknir upp í skuldina á grundvelli veðsins. Skiptastjóri taldi þetta ekki vera lögmæta ráðstöfun. Héraðsdómur féllst á riftunarkröfuna og dæmdi Parka til að greiða þrotabúinu upphæð stólanna, 6,7 milljónir króna, auk 1,6 milljóna króna málskostnaðar.

Málinu áfrýjað

Bitter ehf. áfrýjaði málinu til Landsréttar og fór fram á sýknudóm. Til vara fór félagið fram á að það yrði sýknað af fjárkröfunni og að það yrði viðurkennt að það mætti skila stólunum 149.

Í Landsréttardóminum var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að afhendingin á stólunum hafi verið riftanleg ráðstöfun. Skelfiskmarkaðurinn hafi ekki mátt greiða skuld sína við Bitter ehf. með því að afhenda þeim stólana.

Landsréttur féllst á varakröfu Bitter um að það mætti skila stólunum. Samkvæmt  matsgerð dómkvadds matsmanns, sem ekki hefur verið hnekkt, eru stólarnir til staðar og hefur verðmæti þeirra ekki rýrnað óhæfilega frá því að Bitter fékk þá afhenta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert