Segir stórhættu hafa skapast á veginum

Kona Friðfinns klípur í tjöru sem safnaðist á hjólbarðanum.
Kona Friðfinns klípur í tjöru sem safnaðist á hjólbarðanum. Mynd/Skjáskot

Stórhætta skapaðist á þjóðveginum vegna tjörublæðinga þegar Friðfinnur Tómasson var á ferðinni frá Reykjavík til Skagastrandar í gærkvöldi.

Þetta segir hann í samtali við mbl.is. 

Með honum í bílnum var konan hans og þrjú börn. „Í raun og veru byrjaði þetta rétt eftir Staðarskála, þá fer maður virkilega að finna fyrir þessu,“ segir Friðfinnur.

Beðinn um að útskýra nánar hvernig ástandið var segir hann bílinn hafa titrað mikið. „Þetta var eins og að keyra með sprungið á öllum fjórum. Það kviknuðu ljósin í mælaborðinu og loftþrýstingsljósin. Þetta var stórhættulegt og ég tala nú ekki um ef ég hefði þurft að nauðhemla með fjölskylduna í bílnum. Ég hefði bara runnið á tjörunni og drullunni sem var á dekkjunum,“ bætir hann við. „Ef það hefði bifhjólamaður farið þarna þá hefði þetta getað drepið hann.“

Þetta myndskeið tók konan hans gærkvöldi:  

„Alveg fáránlegt“

Friðfinnur segist aldrei hafa lent í svona löguðu áður og í raun hafði hann aldrei heyrt um tjörublæðingar fyrr en í gær. „Maður hefði skilið þetta ef það hefði verið 35 stiga hiti og malbikið verið „bakað“ í gær en þetta var alveg fáránlegt.“

Hann nefnir að hann hafi séð flygsur skjótast úr bílnum fyrir framan þau og að grjót og malbik hafi lent á rúðunum úr bílum sem óku á móti þeim. Friðfinnur hafði samband við Vegagerðina í dag sem bað hann um að fara með bílinn á Sauðárkrók til að láta þrífa hann og athuga hvort tjón hafi orðið svo hægt verði að bæta það.

Fyrr í kvöld varaði lögreglan á Norðurlandi vestra við tjörublæðingum á vegakaflanum frá Borgarfirði og norður í land. Fram kom að tilkynningar hafi borist i dag um tjón á bifreiðum og eitt umferðaróhapp vegna tjörublæðinga á vegakaflanum úr Borgarfirði og norður í land. Ökumenn voru beðnir um að fara varlega og sýna einnig annarri umferð tillitssemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert