Enginn áhugi virðist vera hjá verktökum að setja upp svokallaða fendera í höfnum. Í tvígang hafa slík útboð verið auglýst á vef Vegagerðarinnar en engin tilboð bárust í verkin.
Fenderar eru viðameiri og betri en það sem venjulega er sett upp í höfnum, þ.e.a.s. hjólbarðar eða gúmmíslöngur og eru til að verja bæði skip og bryggju, upplýsir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Síðan er styrktarbiti langs eftir hlið Herjólfs sem einmitt er hugsaður til að leggjast utan í fenderinn þannig að skipið sjálft sé ekkert að rekast í bryggjuna. Þessir fenderar hafa einnig í för með sér að það er fljótlegra fyrir skip að leggja að og frá.
Í apríl í fyrra óskaði Vestmannaeyjahöfn eftir tilboðum í uppsetningu á sex fenderum á Básaskersbryggju, þar sem Herjólfur leggst að. Ekkert tilboð barst. Sama gerðist þegar Vegagerðin opnaði nýlega tilboð í uppsetningu á sex staurafenderum í Landeyjahöfn.
„Hugsanlega er það tímasetningin sem verktakar eru að horfa á, við viljum að þetta sé unnið að vetri til en ekki yfir háannatímann á sumrin því þetta þýðir einhverjar frátafir,“ segir G. Pétur. Gengið var í það verk að setja upp fenderana í Vestmannaeyjum. Og nú er verið að skoða hvað verður gert í framhaldinu varðandi Landeyjahöfn, því fenderarnir muni fara upp. sisi@mbl.is