Starfsgreinasambands Íslands hefur lýst því yfir að það hafi þungar áhyggjur af því hvernig gengur að innleiða og skipuleggja styttri vinnuviku hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá formannafundi Starfsgreinasambands Íslands.
Síðasta vor voru kjarasamningar undirritaðir um styttingu vinnuvikunnar þar sem lögð var áhersla á að samtal fari fram milli starfsmanna og stjórnenda um fyrirkomulag og innleiðingu á hverri starfsstöð fyrir sig.
Hins vegar gengur innleiðingin hjá sveitarfélögunum mun hægar en Starfsgreinasamband Íslands hafði vonað. Hafa mörg sveitarfélögin þannig annað hvort ekki sinnt samningsbundnu samráði við sína starfsmenn eða ákveðið fyrirkomulagið án aðkomu Starfsgreinasambandsins, að því er kemur fram í fréttatilkynningunni.
Krefst formannafundurinn þess að Samband íslenskra sveitarfélaga tryggi að sveitarfélögin standi við kjarasamningana og tryggi þá starfstíma sem samið var um.