Íbúða- og atvinnuhúsnæði rýmt í fjórum götum

Tvær aurskriður féllu á Seyðisfirði í dag.
Tvær aurskriður féllu á Seyðisfirði í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Vegna aurflóða á Seyðisfirði hefur íbúða- og atvinnuhúsnæði verið rýmt tímabundið í fjórum götum neðan við svokallaða Botna.

Enn er óvissustig vegna skriðuhættu á svæðinu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Engin slys munu hafa orðið á fólki. Vitað er að skriða náði að tveimur húsum að minnsta kosti og flæddi inn í nokkur. Óvíst er með skemmdir en það ætti að skýrast betur með morgninum.

Veðurspá gerir ráð fyrir áframhaldandi rigningu fram að helgi. Óvíst er hvenær íbúar geta snúið til síns heima en staðan verður metin á morgun.   

Meðan óvissustig ríkir eru íbúar hvattir til að fylgjast vel með tilkynningum lögreglu. Næst verður send tilkynning frá lögreglu vegna stöðu mála um klukkan tíu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka