Stjórnarmenn í Kaupfélagi Skagfirðinga (KS) og dótturfélagi þess, FISK Seafood, komu færandi hendi í skólana í Skagafirði í liðinni viku og gáfu þeim þrívíddarprentara, ásamt viðeigandi forritum.
Frá þessu er greint á vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Það voru Grunnskólinn austan Vatna á Hofsósi, Árskóli á Sauðárkróki og Varmahlíðarskóli, ásamt Fjölbrautaskólanum á Norðurlandi vestra, sem fengu þessar veglegu gjafir.
Þrívíddarprentarinn er af gerðinni MakerBot Replicator+, ásamt þrívíddarforritunum MakerBot Print og MakeBot Mobile.
„Forsvarsmönnum KS og skólayfirvalda finnst mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að vinna með og læra á nýjustu tækni á þessu sviði til að vekja áhuga þeirra á þessari grein,“ segir í frétt sveitarfélagsins. Þar er kaupfélaginu og dótturfyrirtækjum þakkað fyrir gjafir og stuðning við skólana í Skagafirði í gegnum tíðina.