Önnur aurskriða náði niður að tveimur húsum

Ljósmynd af annarri aurskriðunni sem féll í dag.
Ljósmynd af annarri aurskriðunni sem féll í dag. Ljósmynd/Aðsend

Að minnsta kosti ein aurskriða til viðbótar féll á Seyðisfirði um hálfníuleytið í kvöld. Hún náði niður að tveimur húsum sem þegar var búið að rýma.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir ekki gott að átta sig á stærðinni á aurskriðunni í myrkrinu og bætir við að staðan verði tekin í fyrramálið.

„Þetta sýnir bara að það er ennþá hreyfing þarna og mikilvægt að fara varlega,“ segir hann.

Ekki er gert ráð fyrir því að neinn gisti í fjöldahjálparstöðinni sem var sett upp í bænum vegna aurskriðanna tveggja sem féllu fyrr í dag. Kristján Ólafur segir flesta ef ekki alla hafa yfirgefið stöðina og að fólkið hafi fengið gistingu annars staðar. Hún verður svo opnuð á nýjan leik í fyrramálið.

Þegar mest lét voru 67 manns í fjöldahjálparstöðinni en rétt um 120 íbúar þurftu að fara úr húsum sínum vegna aurskriðanna.

Aðspurður hvernig fólkið í bænum hefur tekið atburðunum í dag segir hann að það vera mjög rólegt. „Menn taka bara því sem að höndum ber,“ segir hann.

Stutt er síðan fundi almannavarna ríkislögreglustjóra, Veðurstofunnar og lögreglunnar á Austurlandi lauk vegna aurskriðanna. Að sögn Rögnvaldar Ólafssonar hjá almannavörnum var staðan tekin fyrir nóttina. Hann segir Veðurstofuna gera ráð fyrir svipuðu veðri áfram fyrir austan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert