Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það væri ekki ráðlegt að Íslendingar tækju það í sínar eigin hendur að samþykkja bóluefni við kórónuveirunni áður en Lyfjastofnun Evrópu gefur út markaðsleyfi. Ekki er vænlegt fyrir Íslendinga að líta frekar til Lyfjastofnunar Bretlands en Lyfjastofnunar Evrópu í þeim efnum, að sögn Þórólfs. Bretar voru fyrstir til að samþykkja bóluefnið og hafa Bandaríkjamenn, Kanadabúar og fleiri fylgt í þeirra fótspor.
Það hefur Ísland aftur á móti ekki gert og bíðum við nú niðurstaðna Lyfjastofnunar Evrópu sem er með bóluefni Pfizer/BioNTech til skoðunar. Stofnunin hefur gefið út að ákvörðun um markaðsleyfi verði vonandi tekin fyrir 29. desember en í þýskum miðlum er því haldið fram að ákvörðunin verði kynnt 23. desember. Þórólfur hefur ekki heyrt af því en bendir á að Lyfjastofnun hér á landi sjái um samskipti við Lyfjastofnun Evrópu.
Þrír greindust smitaðir af kórónuveirunni innanlands í gær og voru þeir allir nema einn í sóttkví við greiningu.
„Þetta eru náttúrlega góðar tölur, þetta eru lágar tölur, sérstaklega miðað við hvað voru tekin mörg sýni svo við getum bara glaðst yfir því,“ segir Þórólfur.
Um helgina voru haldin samkvæmi þar sem 10 manna samkomutakmörk voru brotin. Þá hópaðist fólk saman í miðbænum. Þórólfur bendir á að ef einhver smit hafi orðið á þessum mannamótum þá taki það þau allt að einni viku að koma inn í daglegan smitfjölda.
Er ekki kominn tími til að létta á aðgerðum, miðað við smitfjöldann?
„Þessar aðgerðir sem eru í gangi núna eru bara nýkomnar á svo við erum ekki endilega að skoða neinar frekari afléttingar en það er þó alltaf í skoðun og menn eru alltaf að ræða málin,“ segir Þórólfur.
Hann fylgist með því hvar Lyfjastofnun Evrópu stendur í mati sínu á bóluefninu en segist ekki vita frá degi til dags hver staðan er.
„Ég held að þeir séu að gera þetta eins vel og þeim er unnt. Þeir eru að fylgja sínum reglum og ég held að við eigum bara að vera ánægð með það. Þó allir séu óþolinmóðir eftir að fá álit þeirra þá held ég að þeir séu bara að taka þann tíma sem þeir ætla að gera þannig að það verði hægt að segja að þeir hafi vandað sig eins mikið og mögulegt er. Ég held að síðast dagurinn sem þeir hafi gefið sér í þetta sé 29. desember en vonandi kemur það fyrir þann tíma.“
Hver dagur hlýtur að skipta sköpum í þessum efnum?
„Einn, tveir eða þrír dagar skipta ekki sköpum núna. Það væri meiri óþreyja fyrir því ef við værum með útbreiddan faraldur. Við getum aðeins andað rólegra en flestir aðrir.“
Við getum ekki horft til samþykktar Breta á bóluefninu og samþykkt það þannig sjálf eða með einhverjum öðrum hætti en að bíða eftir samþykkt frá Lyfjastofnun Evrópu?
„Það held ég ekki, ég held að það væri mjög óráðlegt. Við höfum ekki þá sérfræðinga hér sem geta farið ofan í öll gögn sem snerta þetta til að skera úr um það að þetta sé í lagi. Ég held að það sé langvænlegast fyrir okkur að stíga varfærin skref og vera eins örugg í þessu og öllum öryggismálum sé fylgt áður en notkun hefst.“
Þórólfur segir að undirbúningur fyrir bólusetningu á landsvísu gangi vel.
„Það er full vinna og mikil vinna, menn eru bara að gera þetta eins vel og mögulegt er. Við erum ekki alveg komin með dreifingaráætlun svo þetta er allt í undirbúningi.“
Hvenær hægt að áætla fyrstu dagsetningu bólusetninga?
„Ég held að það sé óráðlegt að segja eitthvað um það. Lyfjastofnun Evrópu þarf að gefa sitt álit út og þá fara ýmsir ferlar í gang, bæði hjá Lyfjastofnun hér á Íslandi sem þarf að samþykkja þetta og svo ferlar innan Evrópu varðandi flutning á bóluefninu. Það á ekki að taka langan tíma, í mesta lagi nokkra daga, svo er það bara spurning hvernig það hittir á hátíðina og áramótin og þar fram eftir götunum. Þannig að við bara öndum rólega þar til við sjáum hvað er í hendi og nákvæmlega hvernig dagskráin verður.“
Þórólfur segir aðspurður að ekki sé möguleiki að flytja bóluefnið inn áður en markaðsleyfi fæst frá Lyfjastofnun Evrópu.