Skiptum EK1923 lokið eftir sjö dómsmál

Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart …
Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart á í tengslum við uppgjör á þrotabúi EK1923. Skiptum á búinu lauk í dag. Samsett mynd

Skiptum er lokið á þrotabúi EK1923, sem áður hét Eggert Kristjánsson hf., heildverzlun. Samtals fengust 635 milljónir upp í kröfur, en við gjaldþrotaskipti búsins voru tæplega 7 milljónir á reikningum félagsins.

Eftir að búið var tekið til gjaldþrotaskipta fór skiptastjóri í samtals sjö mál, en þau hafa mörg hver verið fyrirferðamikil í fjölmiðlum undanfarin ár. Hafa þau mörg tengst fyrri eiganda EK1923, athafnarmanninum Skúla Gunnari Sigfússyni, jafnan kenndum við Subway, og félögum í hans eigu.

Stærsta málinu lauk fyrir Hæstarétti í lok október á þessu ári, en þá var félagi Skúla gert að greiða þrota­bú­inu tæp­ar 223 millj­ón­ir króna með drátt­ar­vöxt­um, sam­tals yfir 400 millj­ón­ir. Þá var fé­lagi í eigu Skúla gert að end­ur­greiða þrota­bú­inu ríf­lega 21 millj­ón króna með vöxt­um.

Í öðru máli sem lauk fyrir Landsrétt í nóvember var íslenska ríkinu gert að greiða þrotabúinu 11 milljónir vegna end­ur­greiðslu gjalds í tengsl­um við út­hlut­un toll­kvóta árið 2015. 

Í tilkynningu sem Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri EK1923, sendi fjölmiðlum fyrir stuttu, segir að skiptameðferð búsins hafi lokið í dag. Niðurstaðan hafi verið sú að samtals hafi eignir búsins verið 635 milljónir, en búskröfur og forgangskröfur fengust að fullu greiddar, auk 326 milljóna í almennar kröfur. Þá greiddist 59% upp í eftirstæðar kröfur sem námu samtals 187 milljónum, en það eru dráttarvextir og kostnaður eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta.

Segir Sveinn Andri í tilkynningunni að mikið hafi gengið á við skiptin og mörgu verið tjaldað til, en að lokaniðurstaðan sé það sem skipti máli og segir hann að gjaldþrotaskiptameðferðin sé sú  „árangursríkasta í sögu íslensks gjaldþrotaréttar.“

Í dag hófst jafnframt fyrir héraðsdómi aðalmeðferð í sakamáli héraðssaksóknara gegn Skúla Gunn­ari, Guðmundi Hjalta­syni og Guðmundi Sig­urðssyni fyr­ir skila­svik í tengslum við gjaldþrot EK1923, en í ákæru er því haldið fram að þeir hafi í aðdraganda gjaldþrotsins skert rétt lánadrottna þess. Ákær­unni var upphaflega vísað frá dómi með úr­sk­urði Héraðsdóms Reykja­vík­ur í byrj­un apr­íl­mánaðar, þar sem talið var að laga­heim­ild hafi brostið til út­gáfu ákær­unn­ar. 

Lands­rétt­ur taldi hins veg­ar enga ágalla vera á kæru máls­ins þannig að það gæti varðað frá­vís­un. Úrsk­urður­inn um frá­vís­un var því felld­ur úr gildi og lagt fyr­ir héraðsdóm að taka málið aft­ur til efn­is­legr­ar meðferðar og hófst sú aðalmeðferð í dag.

Verða samtals 15 vitni leidd fyrir dóminn auk þess sem skýrslur verða teknar af ákærðu. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð muni ljúka á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert