Borgin kaupir fyrir tugi milljóna án útboðs

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reykjavíkurborg fékk á sig harðorðan úrskurð kærunefndar útboðsmála vegna brota á lögum um opinber innkaup þegar keyptur var inn búnaður til umferðaljósastýringa án útboðs og rammasamningur boðinn út sem miðaðist við áður keyptan búnað. Úrskurður kærunefndarinnar féll í gær.

Reykjavíkurborg og Vegagerðinni voru einnig gert að greiða stjórnvaldssekt fyrir að hafa ekki boðið út kaupin. Þá var Reykjavíkurborg úrskurðuð skaðabótaskyld gagnvart kæranda vegna kostnaðar sem féll til vegna þátttöku hans í útboði um rammasamninginn sem Reykjavíkurborg þurfti að draga til baka vegna formgalla.

Umfang samninga sem ekki fóru í útboð og hins kærða útboðs voru um 28 milljónir. Þá eru ótalin framtíðarviðskipti, þar er um töluvert hærri upphæðir að ræða.

Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að líta bæri á samningana tvo sem ein innkaup sem borið hefði að bjóða út á Evrópska efnahagssvæðinu  

Einu fyrirtæki gefið forskot

Reykjavíkurborg keypti, án útboðs og markaðskönnunar, hluta af búnaði við stýringu umferðaljósa, miðlægan stjórnunarbúnað sem kallast MSU, beint af Smith og Norland hf. með samningum 9. júlí 2019. 

Þann 11. október 2019 bauð Reykjavíkurborg út rammasamning um stýribúnað umferðaljósa með skilyrðum um tengingu við búnaðinn sem þegar hafði verið keyptur af Smith og Norland, án útboðs.

Svo virðist sem að búnaðurinn hafi verið valinn án þess að önnur kerfi eða lausnir hafi verið skoðaðar. Umræddur búnaður, MSU, er nú lykillinn að framtíð umferðarstýringar á höfuðborgarsvæðinu og miðast öll útboð að þessum búnaði.

Vegagerðin aðili

Vegagerðin var aðili málsins þar sem hún var aðili samninga sem hefðu átt að fara í útboð. Engu að síður virðist aðkoma Vegagerðarinnar að samningum hafa verið engin og nýttu þau sér ekki tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri vegna kærunnar.

Vegagerðinni var ekki dæmd bótaskylda gagnvart kæranda.

Útboð fellt niður

Í upphaflegri kæru var gerð krafa um að ólögmætir útboðsskilmálar yrðu felldir úr gildi eða að útboðið í heild yrðu fellt úr gildi. 

Eftir að sú kæra barst felldi Reykjavíkurborg niður útboðið í heild sinni og voru áðurnefndum kröfum því vísað frá enda útboð ekki lengur til staðar.

Engin ástæða til kaupa án útboðs

Sérstaklega er tekið til í úrskurði nefndarinnar að Reykjavíkurborg hefði þurft að rökstyðja „með tilhlýðilegum hætti“ að nauðsynlegt hafi verið að kaupa búnað án þess að útboð færi fram. 

Nefndin tekur svo fram að af gögnum málsins verði ekki ráðið að neinar tæknilegar ástæður eða annað hafi réttlætt að gerðir voru samningar beint við Smith og Norland. Einnig tekur hún fram í úrskurði sínum að engin rannsókn hafi farið fram á því hvort nauðsynlegt hafi verið að kaupa búnaðinn án útboðs, en Reykjavíkurborg bar fyrir sig þau rök.

Í umfjöllun nefndarinnar að þessu leyti felst að með því að sniðganga útboð hafi Reykjavíkurborg raskað samkeppni þeirra sem hefðu haft áhuga á að gera samninga.

Rök Reykjavíkurborgar hrakin lið fyrir lið

Í málflutningi sínu bar Reykjavíkurborg fyrir sig að samningarnir sem gerðir voru í júlí 2019 hafi falið í sér viðbótarkaup við samning sem komst á í kjölfar útboðs frá árinu 2005. Sá samningur hafði aftur á móti runnið út mörgum árum áður. Nefndin hafnaði þessu. 

Borgin reyndi að bera því við að eldri lög giltu um samninginn sem gerður var sumarið 2019. Þessu var haldið fram jafnvel þótt núgildandi lög hafi tekið gildi í október 2016 og höfðu þannig gilt í meira en tvö og hálft ár þegar kaupin voru gerð. Nefndin hafnaði þessu.

Þá bendir nefndin á að röksemdir Reykjavíkurborgar stangist á innbyrðis

Kærunefnd gat ekki lýst samninginn óvirkan þar sem hann hefur verið efndur að fullu. Nefndin hefur heimild til þess að stöðva efndir samninga sem enn eru virkir. Búið var að afhenda vörur og greiða fyrir þegar til úrskurðar kom. 

Brotin alvarleg

Segja má að í úrskurðarorði né kærunefnd óvenju harðorð.

„Þeir samningar sem varnaraðilar gerðu við Smith og Norland hf. 9. júlí 2019 voru gerðir án þess að sannanleg athugun hefði farið fram á lögmæti samningsgerðarinnar, svo sem með tilliti til b. liðar 1. mgr. 39. gr. laga nr. 120/2016. Birtist þetta meðal annars í því að varnaraðili Reykjavíkurborg hefur teflt fram hinum ýmsu málsástæðum fyrir lögmæti samningsgerðarinnar við rekstur kærumálsins án þess að réttargrundvöllur fyrir samningsgerðinni hafi verið skýrt afmarkaður í upphafi,“ segir í úrskurðinum.

Sektarfjárhæð er miðuð við 8% af heildarfjárhæð samninganna en samkvæmt lögunum getur sekt aldrei orðið meiri en 10%.

Nefndin telur Reykjavíkurborg vera skaðabótaskylda gagnvart kæranda og úrskurðar um bætur og málskostnað.

Vigdís með varnaðarorð

Sama dag og samningarnir voru kynntir á fundi borgarráðs skrifaði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, grein sem hún kallaði Meira af gulum, rauðum og grænum ljósum borgarstjóra. Þar segir hún m.a.:

 „En mesta furðu vekur að farið er fram með nýtt útboð sama efnis og ekki hefur verið til lykta leitt hjá kærunefnd útboðsmála. Minnt er á að Reykjavíkurborg sjálf felldi niður útboðið og hafnaði öllum tilboðum. Þrátt fyrir samgöngusáttmála ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um forgang ljósastýringar fer borgin fram með þessum hætti og tekur ekkert tillit til þessarar sameiginlegu ákvörðunar og skilnings að bíða eftir þarfagreiningu á ljósastýringarmálum höfuðborgarsvæðinu.

Ljósastýringarbúnaður í höfuðborgarsáttmálanum

Spurningar sem eftir sitja eru hvers vegna Reykjavíkurborg hljóp til í sumar og keypti búnað og bauð út samning sem á að vera hluti af höfuðborgarsáttmálanum í umsjón nýs félags Betri samgöngur ohf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert