Dansa Beyoncé fyrir mæðrastyrksnefnd

Siggi Gunnars og Eva Ruza keppa í Beyoncé-dönsum í kvöld.
Siggi Gunnars og Eva Ruza keppa í Beyoncé-dönsum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jólabingó K100, mbl.is og Morgunblaðsins hefur slegið í gegn á aðventunni og hafa fjölmargir stytt sér stundir á fimmtudagskvöldum með því að spila bingó.

„Þátturinn í kvöld verður í hátíðarbúningi enda slétt vika til jóla,“ segir Siggi Gunnars bingóstjóri. „Söngdívan Jóhanna Guðrún heiðrar okkur með nærveru sinni og kemur öllum í jólaskap með ljúfum jólalögum af nýrri jólaplötu sem kom út á dögunum og svo verður D.J. Stekkjastaur í settinu allt kvöldið og mun hann sjá til þess að allir verði í dillandi stuði,“ segir Siggi.

„Svo er komið að stóru stundinni en fyrir tveimur vikum síðan tókst mér einhvern veginn að skora Evu Ruzu á hólm í keppni í Beyoncé-dönsum. Við munum sem sagt há danseinvígi í beinni útsendingu í anda Beyoncé og áhorfendur geta kosið hvor stóð sig betur í SMS-kosningu. Hvert SMS mun kosta 500 krónur og munu allur ágóði af kosningunni renna beint til Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur sem vonandi mun koma sér vel núna fyrir jólin. Við hvetjum því alla til að kjósa grimmt annað kvöld og um leið láta gott af sér leiða,“ segir Siggi, en til að taka þátt þarf að senda SMS í númerið 1900 og skrifa annaðhvort Siggi eða Eva, eftir því hvor stendur sig betur.

Bingóið verður þó í aðalhlutverki og verður fjöldi spennandi vinninga í boði. „Ég hvet fólk til þess að fara inn á mbl.is/bingo og næla sér í spjald eða spjöld fyrir kvöldið. Svo er bara um að gera að fylgjast með í beinu streymi á mbl.is eða á rás 9 hjá sjónvarpi Símans kl. 19.00. Ég lofa góðri skemmtun og hátíðar stemningu,“ segir Siggi Gunnars að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert