Endurhæfing fyrir alla aldurshópa

Heilbrigðisráðherra hefur sett fram aðgerðaáætlun um endurhæfingu.
Heilbrigðisráðherra hefur sett fram aðgerðaáætlun um endurhæfingu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur sett fram aðgerðaáætlun um endurhæfingu til ársins 2025.  

„Grundvöllur áætlunarinnar er að endurhæfingarhugtakið og stig endurhæfingar verði skilgreind í reglugerð í samræmi við skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðismálstofnunarinnar, að öll endurhæfingarstarfsemi í landinu falli undir ábyrgðarsvið heilbrigðisráðuneytisins og að sett verði á fót endurhæfingarráð,“ segir í tilkynningu frá Heilbrigðisráðuneytinu. 

Endurhæfing aldraðra verður stóraukin og endurhæfingarteymum komið á fót í öllum heilbrigðisumdæmum. Gert er ráð fyrir að öll teymin verði tekin til starfa fyrir árslok 2024. 

Árið 2021 er ráðgert að stofnuð verði miðstöð þróunar og þekkingar í endurhæfingu fullorðinna. Kemur fram í tilkynningunni að meðal hlutverka hennar verði að skapa tækifæri til aukinnar fræðslu á sviði endurhæfingar. 

Auk þess verður sett á fót sérstök endurhæfingarmiðstöð fyrir börn sem gert er ráð fyrir að taki til starfa árið 2025. 

Aðgerðaáætlunin byggist á tillögum starfshóps heilbrigðisráðherra og rúmlega 50 umsögnum sem bárust þegar skýrslan var birt í samráðsgátt. Í aðgerðaáætluninni er að finna 20 markmið og 36 aðgerðir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert