Aurskriða liggur að húsi Davíðs Kristinssonar og fjölskyldu hans á Seyðisfirði og flætt hefur stöðugt inn í húsið. „Það heldur bara áfram að leka inn í það. Ég er búinn að koma tíu sinnum og dæla úr því,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Unnið er að því að reyna að koma jarðvegi frá húsinu og sjá hvað veldur lekanum en svo virðist sem það leki inn á milli gólfplatna.
Spurður út í tjónið segist hann ekki vera kominn með yfirsýn yfir það. „Ég er enginn byggingaverkfræðingur, ég er bara maður í stígvélum og geng um og reyni að hjálpa. Veit ekkert um hvað er skemmt og hvað er hægt að þurrka og redda.“
Hann nefnir þó vínilplöturnar sínar, sem hafi farið illa út úr lekanum. „Þær virðast vera látnar. Þó að það væri búið að gefa út að vínilplötur væru ennþá á lífi, þá eru þær orðnar blautar og ógeðslegar. Þegar ég horfi á þær eru þær allar ónýtar. Ég sé til dæmis Bubbasafnið mitt hérna. Það er allt áritað frá vini mínum. Ég á eftir að gráta það lengi,“ segir Davíð en fjölskyldan dvelur núna á hótel Öldunni.
Hann hefur verið önnum kafinn við að sinna björgunarsveitar- og slökkviliðsstörfum undanfarið vegna aurskriðanna. Störfin hafa í dag snúist um að ferja fólk upp í hús, dælingar og að aðstoða Rauða krossinn við að útvega matvæli. „Þetta hús hefur ekki fengið sérstakan fókus eins og er.“
Spurður út í tilfinninguna vegna lekans í húsinu sínu segist hann ekki vera kominn svo langt að hugsa út í það. „Ég er nú frekar einfaldur að eðlisfari. Ég held að það fljóti bara yfir eins og allt annað hjá mér.“
Varðandi bæjarbúa almennt segir hann stöðuna vera þeim þungbæra. Mestmegnis óttist þeir áframhaldið, hvað gerist næst. „Núna þurfa stjórnvöld að girða sig í brók og klára þessar ofanflóðavarnir sem er búið að tala um síðan lengstu menn muna. Það eru hættusvæði hérna og búið að vita af því lengi,“ segir Davíð að lokum.