Lögmaður félagsins Sjöstjörnunnar hefur sent Héraðsdómi Reykjavíkur bréf þar sem þess er krafist að héraðsdómur hafni tilkynningu um skiptalok þrotabús EK1923, en fyrr í vikunni var tilkynnt að skiptum væri lokið eftir fjölda dómsmála og var haft eftir skiptastjóranum að gjaldþrotaskiptameðferðin væri sú „árangursríkasta í sögu íslensk gjaldþrotaréttar.“ Segir í bréfinu að ekki sé heimild fyrir skiptalokum, meðal annars þar sem enn séu óuppgerð mál fyrir dómstólum.
Eftir að búið var tekið til gjaldþrotaskipta fór Sveinn Andri Sveinsson skiptastjóri í samtals sjö mál, en þau hafa mörg hver verið fyrirferðamikil í fjölmiðlum undanfarin ár. Hafa þau mörg tengst fyrri eiganda EK1923, athafnarmanninum Skúla Gunnari Sigfússyni, jafnan kenndum við Subway, og félögum í hans eigu, en stærsta málið var gegn félaginu Sjöstjörnunni sem Skúli er eigandi að. Tapaðist það mál fyrir Hæstarétti og var Sjöstjörnunni gert að greiða þrotabúinu um hálfan milljarð.
Í bréfinu sem lögmaður Sjöstjörnunnar sendi á héraðsdóm kemur fram að „ágreiningsmál hafa ekki öll verið ráðin til lykta“ og vísað er til þess að enn sé mál gegn skiptastjóra rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Er þar um að ræða mál þar sem skiptastjóri fór fram á dómari málsins myndi víkja, en jafnframt fór hluti kröfuhafa í búið fram á endurgreiðslu skiptakostnaðar úr hendi skiptastjóra og að Sveini Andra yrði gert að víkja störfum sem skiptastjóri. Í umræddu máli var Sveini Andra gert að endurgreiða búinu um 100 milljónir, en hann sagði síðar að um formsatriði væri að ræða sem myndi ekki hafa áhrif.
Í kvörtun lögmanns Sjöstjörnunnar segir að í þessu máli eigi dómari málsins enn eftir að taka afstöðu til krafna félagsins um að víkja Sveini Andra úr starfi vegna aðfinnsla um störf hans. Tekið er fram að sá úrskurður sé svo kæranlegur til æðra dómsstigs. Segir í kvörtuninni að við þessar aðstæður sé óheimilt að ljúka skiptum þrotabús. „Á skiptastjóri ekki að geta komið sér undan ágreiningsmálum með því að einfaldlega ljúka skiptum,“ segir þar.
Þá er einnig vísað til þess að Sjöstjarnan hafi óskað eftir endurupptöku á dómi Hæstaréttar í „stóra málinu“ þar sem félagið þurfti að greiða um hálfan milljarð til EK1923. Bent er á að endurupptökubeiðnin hafi verið móttekin af hálfu endurupptökudóms á mánudaginn kl. 14:44, en skiptafundur þar sem Sveinn Andri tilkynnti um skiptalok var haldinn daginn eftir.
Í endurupptökubeiðninni er byggt á því að ný gögn hafi komið fram við málshöfðun Íslandsbanka gegn Sjöstjörnunni í september á þessu ári. Hafi félagið í framhaldinu leitað uppi frekari gögn sem lögmaðurinn segir að varpi ljósi á að bankanum hafi verið kunnugt um áform Sjöstjörnunnar í „stóra málinu,“ en þar var tekist á um hvort Sjöstjarnan hefði tekið fasteign út úr þrotabúinu upp á rúmlega 200 milljónir. Bent er á að Íslandsbanki sé með 32% krafna í þrotabúið. Þá sýni ný gögn einnig gjaldfærni EK1923 í september 2014, en Hæstiréttur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að félagið var ógjaldfært á þeim tíma.
Í kröfubréfinu sem lögmaðurinn sendi í vikunni á héraðsdóm eru einnig athugasemdir gerpar við að ekki hafi allir kröfuhafar verið látnir vita um skiptafundinn með tilkynningu og að svör Sveins Andra við því hafi verið að hann gengi út frá því að stærsta lögmannsstofa landsins fylgdist með Lögbirtingarblaðinu, þar sem auglýsing um skiptafundinn var auglýst, en lögmaður Sjöstjörnunnar starfar á lögmannsstofunni Logos. Telur lögmaðurinn jafnframt að auglýsingin hafi verið annmörkum háð.