Styrkur svifryks hár í borginni

Svifryk í umferðinni.
Svifryk í umferðinni. mbl.is/​Hari

Styrkur svifryks er hár í Reykjavíkurborg í dag. Klukkan 13 var klukkustundargildi svifryks við Grensásveg 86 míkrógrömm á rúmmetra en fór yfir 100 míkrógrömm á rúmmetra á háannatíma umferðar í morgun.

Í mælistöð á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar var klukkutímagildið á sama tíma 58 míkrógrömm á rúmmetra, að því er segir í tilkynningu frá borginni.

Nú er hægur vindur og kalt, götur þurrar og ekki líkur á úrkomu í dag. Því er líklegt að styrkur svifryks fari yfir sólarhrings heilsuverndarmörk sem eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Gert er ráð fyrir svipuðu veðri næstu daga og því líkur á að styrkur svifryks verði áfram hár.

Dragi úr notkun einkabílsins

Almenningur er hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins við þessar aðstæður, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta.

Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist í nágrenni stórra umferðargatna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hér er hægt að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna. Á síðunni má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert