Á síðasta fundi borgarráðs var samþykkt tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Frakkastíg-Skúlagötu vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar á Frakkastíg 1.
Deilur hafa staðið um þessa fyrirhuguðu sjö hæða byggingu undanfarin ár og nágrannar í Skúlagötu 20 og Íbúasamtök miðborgarinnar hafa haft uppi mótmæli og vilja að hætt verði við áformin.
Íbúar Skúlagötu 20 hafa krafist þess að áform um bygginguna verði felld úr gildi. Byggingin muni skerða útsýni frá íbúðum í húsinu og varpa skugga á svalir og útisvæði. Áskilja þeir sér allan rétt til að krefjast skaðabóta úr borgarsjóði á grundvelli skipulagslaga frá 2010.
En meirihlutaflokkarnir í Reykjavík, Samfylking, Viðreisn, Píratar og Vinstri grænir, hafa haldið sínu striki. Fulltrúar þeirra í borgarráði bókuðu á fundinum í síðustu viku að „með þeim breytingum sem hér hafa verið gerðar á deiliskipulagi er komið til móts við umsagnir um málið að því marki sem mögulegt er“. Eiga þeir hér væntanlega við að ákveðið var að breyta tveimur efstu hæðum hússins og hafa þær inndregnar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.