Að minnst akosti 10 hús eru skemmd eftir aurskriðu sem féll á Seyðisfirði um klukkan þrjú í dag. Eitt hús, svokallað Framhús, virðist mikið skemmt og jafnvel ónýtt, en ekki hefur enn verið staðfest hversu miklar skemmdir eru á öðrum húsum.
Almannavarnir hafa beðið alla íbúa bæjarins um að koma í fjöldahjálparmiðstöðina í félagsheimilinu Herðubreið. Þá er stefnt að því að rýma bæinn, en það A-svæði samkvæmt hættumati verður allavega rýmt að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, upplýsingafulltrúa almannavarna. Göturnar eru: Botnahlíð, Brattahlið, Múlavegur, Túngata (að hluta til), Miðtún (að hluta til), Brekkuvegur, Baugsvegur, Austurvegur (að hluta til), Hafnargata, Fossgata
Segir hann að fólk megi sjálft aka í burtu, en það sé beðið að fara í fjöldahjálparmiðstöð á Egilsstöðum sem verði í Egilsstaðaskóla. Rútur verða einnig í boði frá Herðubreið.
Jóhann segir að ekki sé vitað um manntjón eða heildarumfang skemmda.