Bóluefnaframleiðslan „komin á fulla ferð“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bóluefnið sem Ísland fær frá Pfizer er framleitt í Evrópu og var þar um hráefnisskort að ræða að sögn Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. „En það er hins vegar þannig að framleiðslan er komin á fulla ferð. Það eru upplýsingarnar sem við fengum í morgun.“

Tilefni þessara ummæla var spurning Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þingmanns Miðflokksins á þingi í dag, sem spurði Svandísi út í þær tafir vegna hráefnisskorts sem forsætisráðherra sagði frá í gær.

„En nú hefur fyrirtækið sent frá sér tilkynningu um að það séu engin vandkvæði á framleiðslunni,“ sagði Sigmundur og benti á að í þessu fælist misræmi.

„Yfirlýsingin kemur þar vegna opinbers umtals og umræðna um að framleiðsla og dreifing bóluefnis Pfizer sé vandkvæðum bundin,“ sagði Svandís og bætti við að „viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins við þessu eru að þessar fréttir viðast eiga við Bandaríkjamarkað.“ 

„Við höfum undirritað samkomulag um 170.000 skammta af bóluefni frá Pfizer og það þýðir í raun og veru bóluefni fyrir 85.000 manns og það heldur,“ sagði Svandís Svavarsdóttir. 

Voru mistök að binda trú við ESB? 

Sigmundur spurði einnig hvort að við höfum farið bestu leiðina við að tryggja okkur bóluefni og hvort það hafi verið mistök að binda trú við ESB. Benti Sigmundur á að Bretland sé, fyrir allnokkru, farið að bólusetja sitt fólk með bóluefni frá Pfizer.  

„Lyfjamál eru hluti af EES-samningnum og við erum hluti af þessu samhengi öllu saman. Auk þess er það þannig að það styrkir okkar samningsstöðu að vera samferða ESB. Gefur augaleið að ríki eins og Ísland hefði staðið með allt öðrum hætti ef við höfðum sjálf staðið andspænis þessum lyfjafyrirtækjum,“ sagði Svandís þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka