Fjöldahjálparstöðin var á rýmingarsvæðinu

Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldahjálparstöð fyrir íbúa Eskifjarðar var upphaflega á rýmingarsvæði almannavarna, en  einhverjum íbúum Eskifjarðar var gert að yfirgefa heimili sín í dag. Því þurfti að færa fjöldahjálparstöðina og er hún nú utan rýmingarsvæðisins. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að aðgerðir bæði á Seyðisfirði og Eskifirði gangi vel.

„Já, fjöldahjálparstöðin var upphaflega inná rýmingarsvæðinu. Það var því brugðið á það ráð að færa hana og nú er hún nú í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Samhugur mikill

Víðir segir að allir leggist á eitt við að leysa þær áskoranir sem nú steðja að íbúum skriðusvæðanna. Hann segist ekki vita hversu margir þurfi að yfirgefa heimili sín.

„Við erum ekki með endanlegar tölur, nei. Þetta er mikið af fólki engu að síður.“

„Það gengur alveg svakalega vel,“ segir Víðir um samtakamátt bæjarbúa. „Það gangast allir við öllum verkefnum hérna og standa sig ótrúlega vel.“

En þú ert kominn aftur, er þér batnað?

„Ég hef ekki náð fullri heilsu, nei, en ég reif mig af stað núna síðdegis til að leggja hönd á plóg í þessu verkefni.“'

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert