Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir neyðarstigi á Seyðisfirði vegna aurskriðna sem fallið hafa síðustu daga og í dag. Seyðisfjörður verður rýmdur. Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarna til fjölmiðla.
Skriða sem féll nú laust fyrir þrjú síðdegis fór á nokkur hús að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Viðbragðsaðilar vinna nú að því að kanna hvort húsin hafi verið mannlaus.
Allir íbúar og aðrir á Seyðisfirði eru beðnir að mæta í félagsheimilið Herðubreið og gefa sig fram í fjöldahjálparstöð eða hringja í síma 1717.
Allar björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið boðaðar og lögreglumenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sérsveit ríkislögreglustjóra og frá lögreglunni á Norðurlandi eystra hafa einnig verið sendir á staðinn.