Öll umferð um Seyðisfjörð bönnuð

Frá Seyðisfirði í dag.
Frá Seyðisfirði í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Neyðarstig og rýming verður áfram í gildi á Seyðisfirði næsta sólarhinginn, í það minnsta. Á sama tíma verður hættustig í gildi á Eskifirði og rýming á því svæði sem rýmt var fyrr í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Staðan verði endurmetin klukkan ellefu í fyrramálið í samráði við Veðurstofu Íslands.

Tekið er fram að öll umferð um Seyðisfjörð sé bönnuð þar til annað verður ákveðið.

Engra er saknað eftir skriðurnar sem féllu og engin slys hafa verið tilkynnt. Eftir að staðan verður metin á Seyðisfirði á morgun verður send tilkynning til íbúa um hvort og hvernig þeir geti vitjað og athugað með eignir sínar, að því er segir í tilkynningunni.

Ellefu hús skemmst

Stór aurskriða féll úr Botnabrún, milli Búðarár og Stöðvarlækjar, skömmu fyrir klukkan þrjú í dag og féll á tíu hús. Eitt hús skemmdist í skriðu nóttina áður. Í kjölfarið ákvað ríkislögreglustjóri að hækka almannavarnastig á Seyðisfirði úr hættustigi í neyðarstig.  

Allir íbúar og aðrir á Seyðisfirði voru beðnir um að mæta í félagsheimilið Herðubreið og gefa sig fram í fjöldahjálparstöð Rauða krossins eða hringja í síma 1717. Síðar var ákveðið að Seyðisfjörður yrði rýmdur, sem gekk vel að sögn lögreglu.

Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands ákvað eftir að skriðan féll að kanna betur ástandið í öðrum fjörðum. Kom í ljós að sprungur í gamla Oddskarðsveginum ofan Eskifjarðar höfðu stækkað og í kjölfarið var ákveðið að rýma hluta af Eskifirði og var opnuð fjöldahjálparstöð þar.

Enginn þurfti á gistingu að halda

540 íbúar frá Seyðisfirði skráðu sig í fjöldahjálparstöð Rauða kross Íslands í Egilsstaðaskóla á Egilsstöðum. 165 íbúar á Eskifirði skráðu sig í móttökustöð RKÍ sem sett var upp í Eskifjarðarkirkju og var þeim boðið að gista í fjöldahjálparstöð á Norðfirði. Enginn þurfti á gistingu að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert