Sérsveitin á leið til Seyðisfjarðar

Þórhallur Árnason, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Austurlandi.
Þórhallur Árnason, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Austurlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Litlu mátti muna þegar aðalvarðstjóri lögreglunnar á Austurlandi yrði fyrir aurskriðunni sem féll á Seyðisfjörð síðdegis. Hann og kollegi hans urðu að flýja undan skriðunni á lögreglubíl.

Líklegt þykir að einskis sé saknað eftir skriðuna, en enn er oft snemmt að fullyrða alveg um það. Sérsveit ríkislögreglustjóra er á leið til Seyðisfjarðar.

„Lögreglumenn þurftu að flýja undan skriðunni, meðal annars ég og kollegi minn á lögreglubíl og einn varð á milli skriðanna og sem betur fer varð ekki undir neinu,“ segir Þórhallur Árnason, aðalvarðstjóri í samtali við Viðar Guðjónsson, blaðamann mbl.is sem staddur er á Seyðisfirði.

„Við horfðum bara upp í hlíðina, beygðum, gáfum í og komum okkur í burtu,“ segir Þórhallur spurður um atvikið.

Bæjarbúum og viðbragðsaðilum brugðið

Þórhallur segir að gríðarleg hætta hafi skapast á svæðinu og því sé verið að rýma Seyðisfjörð og koma bæjarbúum til Egilsstaða. Það verður gert bæði með rútum og einkabílum. 

„Það er verið að flytja fólk á Egilsstaði þar sem tekið verður á móti því.“

Spurður um manntjón segist Þórhallur nokkuð viss um að allir séu enn ómeiddir.

„Við höldum ekki og ég held að það sé svona ákveðinn grunur um að svo sé rétt, en ég get ekki algjörlega staðfest það.“

Sérsveitin á leiðinni

Augljóst er að mikið starf er fyrir höndum bæði á Seyðisfirði og við mótttöku Seyðfirðinga á Egilsstöðum. Því hafa björgunarsveitir víðs vegar um Austurland verið kallaðar til, tiltækt lögreglulið og sérsveit ríkislögrelustjóra af höfuðborgarsvæðinu.

Hvert verður hlutverk þeirra?

„Það mun bara ráðast þegar þeir lenda hérna,“ segir Þórhallur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert