Skriðan sem féll á Seyðisfjörð nú um klukkan þrjú í dag fór meðal annars á björgunarsveitahús björgunarsveitarinnar Ísólfs. Þar voru menn að störfum, en náðu allir að komast í burtu.
Enn sem komið er er ekki vitað um neitt manntjón eða að neinn hafi verið í húsunum sem urðu undir. Staðfest er að eitt hús hafi farið í skriðunni og talsverður fjöldi annarra húsa skemmst.
Reynt er að taka manntal af fólki í fjöldahjálparmiðstöðinni, en þangað hefur öllum verið stefnt og er fjölmiðlafólk meðal annars þar.
Blaðamaður mbl.is segir að nú séu á annað hundrað manns saman komin þar, en viðbragðsaðilar eru þó áfram úti. Búið er að lýsa yfir neyðarstigi og stefnt er að því að rýma bæinn.