Vilja reisa nýtt baðlón í Eyjum

Þeir sem að verkefninu standa er Lava Spring Vestmannaeyjar ehf. …
Þeir sem að verkefninu standa er Lava Spring Vestmannaeyjar ehf. og í forsvari er Kristján Gunnar Ríkarðsson. Teikning/T.ark arkitektar

Hugmyndir eru um að reisa nýtt baðlón sem staðsett verður á ofanverðum Skansinum í Vestmannaeyjum. Gert er ráð fyrir heitu baðlóni ásamt heitum pottum, gufuböðum og innbyggðum hraunhelli. Jafnframt verður aðstaða fyrir veitingasölu og aðra þjónustu fyrir gesti lónsins.

Baðlónið verður um 1.400 fermetrar að stærð  og byggingin sjálf um 1000 fermetrar. Þá eru uppi framtíðarhugmyndir um að reisa 50 herbergja hótel í tveimur byggingum, sem staðsettar verða í hlíðum fjallsins.

Þetta kemur fram á vef Vestmannaeyjabæjar. Þar segir jafnframt að á fundi bæjarráðs hafi verið til umfjöllunar í fyrradag hafi verið til umfjöllunar drög að viljayfirlýsingu Vestmannaeyjabæjar og Lava Spring Vestmannaeyjar ehf. um gerð baðlónsins.

Bæjarráð kveðst fagna áformum um uppbyggingu Lava Spring Vestmannaeyjar ehf. um gerð baðlóns í Eyjum. 

Horft er til að varðveita fágætt landslagið sem kostur er …
Horft er til að varðveita fágætt landslagið sem kostur er og mun byggingin falla hógvær inn í landið til að lágmarka sjónræn áhrif, að því er segir í tilkynningunni. Teikning/T.ark arkitektar

Á vef bæjarins segir einnig, að baðlónið komi til með að verða vinsæll áfangastaður á eynni með einstakri snertingu við náttúruperlur svæðisins. Góð aðkoma verði að lóninu og hannaðar verða gönguleiðir frá bænum með sem minnstu raski um ósnortið hraunið.

Þá sé hugmyndin að skoða mögulega hótelbyggingu við baðlónið, sem muni að mestu falla inn í landið. 

Hönnuðir baðlónsins eru T.ark arkitektar ehf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka