Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra líst vel á tillögur Bankasýslu ríkisins um að sölumeðferð verði hafin á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Þetta sagði Bjarni í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Hann vill að ríkið selji fyrir nokkra tugi milljarða í bankanum áður en kjörtímabilinu lýkur, en segir að til lengri tíma hljóti markmiðið að vera að selja allan eignarhlut ríkisins.
Ríkið á Íslandsbanka að fullu, en Bankasýslan hefur umsjá með eigninni. Til stóð að hefja söluferlið í febrúar en fallið var frá því þegar kórónuveirufaraldurinn hófst. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa lýst efasemdum sínum með hugmyndirnar, og sett spurningarmerki við tímasetninguna.
Spurður hvort nú sé góður tími til að selja banka, segist Bjarni telja að svo sé. „Við sjáum að hlutabréfavísitalan hefur hækkað um 50% frá því hún botnaðieftir faraldurinn og á sama tíma hafa bankar í Evrópu hækkað yfir 30%,“ segir Bjarni. Þá hafi nýlegt hlutafjárútboð Icelandair gengið vel. „Við vitum að það er mjög mikið laust fé í kerfinu og ég held að það verði áhugi á að taka þátt í útboði.“
Til stendur að skrá bankann á markað. Að svo búnu gæti ríkið farið að selja hlut sinn. Eigið fé Íslandsbanka stendur í um 180 milljörðum króna og segir Bjarni að gera megi ráð fyrir að eignarhluturinn sé virði um 130-140 milljarða króna, þótt slíkt sé auðvitað breytilegt.
Ekki stendur þó til að selja allan bankann á einu bretti. „Við þurfum að meta umfang [sölunnar] og það er þáttur í því ferli sem er fram undan að ákveða hversu stóran eignarhlut við myndum selja,“ segir Bjarni. „Við getum verið að losa um nokkra tugi milljarða og það kemur sér vel á þessum tímum. Ég held að þetta muni létta ríkissjóði að takast á við hallarekstur“